Draumar

Undanfarið hafa gamlir leikfélagar og kærastar ásótt mig í draumum... Síðast núna í nótt.

Mig dreymdi mann. Mikinn kraftajötunn... Ég held að ég hafi bloggað um hann í den tid undir nafninu Gesturinn. Hann talaði við mig ekki alls fyrir löngu og sagðist hafa séð eftir því að hafa ekki gengið lengra með mér.

Einhverra hluta vegna fórum við á mis hvort við annað eftir tvær fallegar nætur saman.

Með honum var ég lítil og varnarlaus. Hann æfði lyftingar og var mér algjörlega ofjarl og ég naut þess. Blíðlegt faðmlag frá honum var þétt og ósveigjanlegt eins og hann sjálfur og ég heillaðist af því. Ég hafði ekki roð við honum og varð ósjálfrátt undirgefin, þrátt fyrir að hann væri ekki einusinni fyrir BDSM.

Hann kynntist síðan konunni sinni og á núna barn með henni og ég kynntist G.
Ég hef ekki mikið hugsað um þennan mann fyrr en við spjölluðum saman á msn núna í vetur. Það var fallegt samtal þar sem við ákváðum að vera vinir og hittast með vorinu þegar hann yrði á landinu og reyna að mynda vináttu.
Ég hlakkaði mikið til, en síðan leið vorið og sumarið er komið langt á leið, svo ég efast um að það verði nokkuð úr þessu.

Núna angrar hann mig á næturnar í draumum sem veldur því að ég huxa "hvað ef eitthvað hefði nú farið öðruvísi en það fór?" En persónulega vildi ég ekki vera á öðrum stað en ég er á í dag svo svona vangaveltur hafa lítið upp á sig.

Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki afhverju ég er að deila þessu með ykkur lesendur góðir. Á einn hátt er þetta útrás og kannski ágætis leið til að vinna úr þessu. Á annan hátt er þetta leið til að gleyma sér í fortíðinni og láta sem allt hafi verið fallegra og betra þá....

Ummæli

Vinsælar færslur