50 gráir skuggar

Auðvitað keypti ég mér bókina, á ensku að vísu og tætti hana í mig á nokkrum dögum.
Vægast sagt varð ég fyrir vonbrigðum. Það er mikið búið að tala um þessa bók og segja að hún hefur opnað BDSM heiminn fyrir margann lesendann en ég er samt ekki alveg sátt.
"Mömmuklám" sá ég einhversstaðar ritað og er ekki frá því að það sé réttnefni á bókinni. Það líður ekki kafli án þess að í honum sé kynlíf af einhverju tagi. Innri tími bókarinnar er ekki nema nokkrar vikur og það eina sem hún snýst um er aðal söguhetjan og samband hennar við Mr. Grey. Hún sem sagt hleypur kynlífssena á milli á handahlaupum.

Hvað BDSM varðar þá efa ég ekki um að hafi leitt marga inn í þennan heim sem þegar voru farnir að finna fyrir þessum kenndum.
Bókin sýnir BDSM aftur á móti ekki í mjög jákvæðu ljósi. Bókin er skrifuð frá sjónarhorni aðal söguhetjunnar, Anastasíu, sem er mjög efins um BDSM heiminn og allt sem honum fylgir. Í sögunni gefst höfundinum mörg tækifæri til þess að útskýra BDSM og kynna það betur fyrir forvitnum lesendum, en gerir það aftur á móti ekki, heldur skilur hann lesandann eftir nánast engu nær. Þetta er til, vissulega, en hvað BDSM nákvæmlega er, út á hvað það gengur og að þetta sé í raun öruggt, samþykkt og meðvitað er að miklu leiti skautað yfir.

Þetta er bók sem hefur mikla möguleika en nýtir sér þá ekki.

Ummæli

Vinsælar færslur