Það eru fleiri eins og við

Eins og glöggir lesendur mínir vita þá höfum við G opnað sambandið og erum að prófa okkur áfram með öðru fólki.

Ég lenti á skemmtilegu spjalli við betri helming pars sem er í sömu sporum og við. Þau ákváðu að opna sambandið og hleypa fleira fólki inn í ástarlífið sitt. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað ég og þessi kona áttum margt sameiginlegt í þessum efnum. Við höfum báðar fundið fyrir því sama eftir að sambandsdyrnar opnuðust. Þar má til dæmis nefna þá tilhneigingu að hugsa betur um útlitið, mála sig af því bara, en ekki af því að eitthvað stendur til; aukið sjálfstraust; hamslaus gredda; að horfa á karlmenn úti í búð eða hvar sem er og gæla við hugmyndina að sofa hjá viðkomandi.
Mér fannst alveg frábært að hitta þarna fyrir manneskju sem stóð í sömu sporum og ég, og var að upplifa það sama og ég. Ég er þá ekki eina konan í heiminum sem er að upplifa þessar kenndir.

Sambandið þeirra á milli virðist líka byggt á bjargi og þau gera allt saman. Án þess að hafa traustann grunn held ég líka að það gangi ekki upp að opna sambandið. Pör verða að geta treyst hvort öðru og vera tilbúin að tala um öll þau álitamál sem geta komið upp í svona aðstæðum. Allskonar tilfinningamál geta komið upp þegar fleiri aðilum er hleypt inn í svefnherbergið, öfund, óöryggi, ósætti eða óánægja hvers konar. Ef að fólk er ekki tilbúið að opna sig og ræða málin þá er allt eins víst að einhver smá hnökri geti hreinlega valdið sambandsslitum.

Ummæli

Vinsælar færslur