Kynlífsrannsókn

Fyrir einn áfanga í skólanum átti ég að lesa rannsókn um kynlíf og kynhegðun unglinga á Íslandi. Þetta er ein fárra greina sem ég las út í gegn í einum rykk og drakk í mig allt sem stóð í henni. Það sem að mér fannst áhugaverðast við hana er að í henni stóð að 60% íslenskra ungmenna nota getnaðarvörn í fyrsta skipti sem það hefur samfarir.
Sem er bara gott og gilt en þetta segir okkur líka að 40% íslenskra ungmenna nota ekki getnaðarvörn í fyrsta skipti sem það hefur samfarir. Það finnst mér vera svakalega há prósenta. Það er rétt tæplega helmingur, fjórir af hverjum tíu, eða tveir af hverjum fimm. Hvar er kynfræðslan fyrir þessa krakka?

Ég man það reyndar að þegar ég var lítil þá fékk ég ekki ýkja mikla kynfræðslu. Ég vissi svosem hvernig tippi og píkur litu út, svona sirka, og hvað átti að fara hvert. Ég vissi líka að það væri gáfulegt að nota smokk og ég var farin að nota smokk áður en ég fór að stunda kynlíf með öðru fólki.

Ég sem sagt átti einhvern hlut (segi ekki hvaða hlut!), sem var mjög heppilegur í laginu og hentaði mjög vel í tilraunastarfsemi. Af því að þetta var óhefðbundinn hlutur þá setti ég alltaf smokk á hann áður en ég notaði hann. Þetta er samt útúrdúr á því sem ég ætlaði að fjalla um.

Maður hefði samt einhvernveginn haldið að þetta hafi þróast eitthvað á þeim 15 árum sem eru liðin frá því að ég var að fá kynfræðslu í skólanum, en svo virðist ekki vera. Ennþá virðist kynlíf vera feimnismál, þrátt fyrir að rannsóknir hafi sýnt fram á að það virkar fátt betur til að fá krakka til að stunda ábyrgt kynlíf og góð umfjöllun um það. Sem sagt, umfjöllun um það, en ekki að stumra þessu vandræðalega út og horfa svo í hina áttina. Ég er nokk viss um að krakkarnir vita hvernig þeir komu í heiminn, níu mánuðir í maganum á mömmu og allt það. Því ekki að fræða þau aðeins betur um það sem gerðist níu mánuðum og einni kvöldstund áður?

Ummæli

Vinsælar færslur