Þótt ótrúlegt sé...

Ég hef ekki bloggað hérna í bráðum ár. Einhvernveginn fór ég að hugsa um annað, gaf mér ekki tíma til að setjast niður og blogga og andinn víðsfjarri. Nema hvað núna áðan þegar ég rölti um ganga vinnunnar minnar helltist yfir mig sú löngun að setjast niður og skrifa og deila með ykkur, mínir kæru lesendur, hvað býr mér í brjósti.

Það er skemmst frá því að segja að ég er farin að vinna og í vinnunni minni fæ ég þann heiður að umgangast unglinga, og ekki nóg með það, þá fæ ég líka að kenna unglingunum kynfræðslu. Það gæti ekki verið betra. Það sem kemur upp úr krökkunum í þessum tímum og fyrirspurnirnar sem ég fæ held ég að sé efni í heila bók.


Ég hef svolítið verið að vinna með nafnlausar spurningar, krakkarnir fá blöð til að hripa eitthvað niður á og allir eiga að skrifa eitthvað. Sumir koma með alvöru spurningar um efnið, aðrir bulla bara eitthvað, enn aðrir benda manni pent á að svertingjar séu jú víst með stærri tippi en hvítir, svo eru þeir örfáu sem nota miðann fyrir listræna hæfileika sína og teikna mynd, og ekki má gleyma þeim sem að benda á að það vanti meiri umfjöllun um eitt eða annað, að lokum má svo nefna þá sem koma með tillögu eða tvær. Á einum miðanum sem ég fékk stóð einfaldlega staður og stund.
Ég hafði mjög gaman af þeim miða og var pínulítið upp með mér fyrir vikið. 

Ég vona að strákgreyið hafi ekki beðið lengi eftir mér.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Frábært að sjá skrif frá þér aftur!!! Takk.

Vinsælar færslur