Mig lystir

Á ensku getur maður sagt "I lust for someone or something". Ég er að velta því fyrir mér hvort maður geti sagt á okkar ástkæra ylhýra "mig lystir í einhvern eða eitthvað"?

Það var samt ekki ætlunin með þessari færslu að ræða íslenska tungu, heldur einmitt þetta: að lysta í eitthvað, eða réttara sagt einhvern.

Endur fyrir löngu, nánar tiltekið þegar ég var í unglingadeild í grunnskóla, tók ég nokkurra mánaða tímabil þar sem ég var ákaflega hrifin af tvíbura. Öðrum tvíburanum í setti af eineggja tvíburum.
Að sjálfsögðu þóttist ég geta gert greinarmun á því hvor var hver og var sko alls ekki hrifin af Þorra þó ég væri brjálæðislega skotin í Kristófer. Þetta var dæmigert unglingaskot. Ég fylgdist grant með Kristófer í öllum frímínútum og lagði mig alla fram við að greina þá bræður í sundur, því ég var jú bara skotin í öðrum en ekki hinum. Ég þorði líka ekki fyrir mitt litla líf að yrða á Kristófer og dáðist þess í stað að honum úr fjarska.
Árin liðu og árgangurinn okkar tvístraðist um allar koppa grundir eftir grunnskólann eins og gerist og gengur. Ég hef ekkert frétt af þeim bræðrum síðan í 10. bekk og get ekki sagt að ég hafi mikið spáð í það hvað varð úr þeim. Ekki urðu þeir fótboltastjörnurnar sem ég var búin að sjá fyrir, því þeir voru alltaf í fótbolta þegar við vorum saman í unglingadeildinni forðum.

Fortíðin bankaði svo hressilega upp á þegar ég mætti í vinnuna einn mánudagsmorgun og þar sat annar tvíburinn. Ég var fljót að sjá að þetta væri Kristófer en þekki þá víst ekki betur en svo í sundur að hann kynnti sig sem Þorra. Þá vikuna var ég með hann fyrir augunum á hverjum degi. Strax á þriðjudegi fór gamalt skot að taka sig upp og ég var óþægilega meðvituð um tilvist þessa manns(þó svo ég hafi upphaflega verið skotin í bróðirinum en ekki honum). Hvar hann sat, hvernig hann hreyfði sig, að augun í honum voru virkilega blá og varirnar rosalega kyssulegar. Að hann væri herðabreiður með sterklegar hendur...
Ég vissi líka ekki alveg hvernig ég átti að bera mig í kringum hann. Átti ég að horfa á hann? Láta sem ég þekkti hann ekki? Mátti ég horfa á hann? Átti ég að spjalla við hann eins og við þekktumst eitthvað? Var ég að veita honum meiri athygli en öðrum? Tóku aðrir eftir því að ég væri hálf kjánaleg í kringum hann? Var líkamstjáningin mín að segja eitthvað? Var hann að kíkja á mig til baka? Úff... ég skil unglingsstelpur vel að það sé erfitt að vera skotin í strák.

Útlitslega laðaðist ég mikið að honum þó svo að við töluðum lítið sem ekkert saman alla vikuna. Hann vakti hjá mér löngun og losta og mig lysti í hann. Ég stóð sjálfa mig að verki að hugsa hversu yndislegt það væri að snerta hann, að finna lyktina af honum, að kyssa hann og láta tunguna létt leika við tattú sem hann var með á hálsinum og lá niður undir bolinn hans....

Sjaldan hef ég samt verið jafn fegin að þurfa bara að vinna með fólki í stuttan tíma í senn. Nærvera hans eyðilagði alla einbeitingu mína og vinnuvikan er talsvert léttari án svona truflunar. Hvernig tekst fólk á við vinnustaðaskot sem þarf að vinna saman fjórar vikur í mánuði, 12 mánuði á ári?

Ummæli

Vinsælar færslur