Talandi um fantasíur

Ég hef skrifað inn nokkrar örfantasíur undanfarið. Þær eru ekki efni í heilan leik eða heila sögu en samt smá krydd í tilveruna. Fyrir nokkrum dögum þá rættist ein þeirra.

Er annars hægt að segja að fantasíur rætist? Oft eru þær ekki endilega óskir eða draumar heldur hugmynd sem æsir mann. Sumar fantasíur eru það hugleiknar manni að maður vill ekki að þær verði að veruleika. Aðrar eru það grófar eða hættulegar að það er hreinlega ekki hægt.

Ahaa.... þarna er orðalagið sem ég ætla að nota. Fyrir nokkrum dögum þá varð ein þeirra að veruleika. Ég ætla ekki að segja ykkur hver þeirra samt. Þið megið nota ímyndunaraflið eða velja fyrir ykkur sjálf.

Þegar ég sá í hvað stemmdi þá fór allt af stað hjá mér. Hugsanirnar þeyttust fram og til baka: Er þetta að gerast í alvörunni....? Já, þetta er að gerast í alvörunni og þetta er alveg eins og í fantasíunni!! Ég var í skýjunum yfir þessu og það æsti mig upp úr öllu valdi.
Á sama tíma truflaði það mig aðeins að upplifa þetta í raunheimum. Ég get eiginlega ekki lýst því almennilega en tilfinningin var hálfpartinn eins og þetta væri draumur, eins og þetta væri ennþá bara hugarfóstur hjá mér og að ég hefði hoppað yfir í draumalandið í smá stund eða að hann væri hreinlega að lesa hugsanir mínar. Hugurinn fór meira að segja að ritskoða það sem ég hafði skrifað á bloggið um þessa örfantasíu.

Þetta var samt æðislegt og ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt! Fantasíur eru aldrei alveg eins í hugarheimum og raunheimum en þessi var það nú samt.



Ummæli

Vinsælar færslur