Frágangur

Vertíðinni er að ljúka í vinnunni minni. Undanfarna daga hefur bara verið frágangur og tiltekt. Ég er ekki mjög góð í frágangi og tiltekt ef satt best skal segja. Mér leiðist það! Mér leiðist það ótrúlega mikið!! Sí endurtekin þrif, ekki bara einn gluggi heldur 39 gluggar. Ekki bara eitt borð, heldur 15 borð og 90 stólar sem þarf að þrífa og ganga frá.

Þegar ég er að vinna svona leiðinlega (en jú, nauðsynlega) vinnu þá er ég yfirleitt andlega fjarverandi. Undanfarna daga hef ég verið í draumalandinu, mínum eigin hugarheimi. Ég er búin að halda partý, gefa út bók, verða fræg og sigra heiminn með blauta tusku í hendi. Ég er búin að lenda í ástarsamböndum, rifrildum, drama, bæði góðu og slæmu þar sem ég þurrka annarshugar af borðunum. Ég er búin að leika og ríða og prófa eitt og annað á meðan ég stafla stólum og fer með þá niður í geymslu.

Á einn hátt er þetta útrás, mér tekst að gera vinnuna og bærilega og allan þennan tíma er ég að semja færslur í huganum. Eitt og annað sem er sniðugt og skemmtilegt að deila með ykkur. Á annan hátt getur þetta verið pirrandi. Í fyrsta lagi þá get ég ekki stokkið í tölvu um leið og ég fæ góða hugmynd að bloggfærslu. Í öðru lagi þá verða hugarburðir mínir sjaldnast að veruleika... og það er synd.

Ummæli

Vinsælar færslur