Leikfall

Eins og glöggir lesendur mínir vita þá er sadistinn í mér vaknaður. Ekki alls fyrir löngu planaði ég leikhitting með álitlegu fórnarlambi. Svo að þið séuð alveg með á nótunum þá ætla ég að rekja söguna aðeins. 

Planið var að leika á sunnudegi. Á fimmtudegi kom það í ljós að sunnudagurinn myndi ekki ganga upp en föstudagur gæti gert það. Þannig að í stað þess að hafa laugardaginn til að ná mér niður eftir vinnuvikuna og undirbúa mig fyrir leik, þá hafði ég fimmtudagskvöld til að undirbúa mig fyrir leikinn og föstudaginn til að... ja, vinna og sinna öðrum erendum áður en leikurinn átti að vera. 
Ofan á það bætist að við fengum áhorfanda. Alveg frábæra stelpu sem var forvitin um gang mála í þessum efnum. Það var allt saman gott og blessað fyrir utan tvö pínku ponsu smáatriði. Í fyrsta lagi þá hafði ég aldrei haft svona áhorfanda áður. Í öðru lagi þá hafði ég aldrei hitt þessa stelpu áður. 

Svo kom föstudagur bjartur og fagur. Þegar leið að hittingi er fann ég að ég var þegar orðin þreytt eftir strangan dag og erfiða vinnuviku. Ég sótti samt stúlkukindina og við náðum rosalega vel saman. Við komum í hlaðið hjá fórnarlambinu og leikurinn fór fram með hefðbundnum hætti. Þetta var frekar stuttur leikur því ég fann það fljótlega að ég orkaði ekki miklu. 

Eftir leikinn var ég í skýjunum!! Ég flaut heim á bleiku skýi og heimurinn, lífið og tilveran og allt var æðislegt. Ég get svarið það að himininn hefur sjaldan verið jafn blár. 
Laugardagsmorgun var himininn ennþá blár með bleikum skýjum en þegar leið á seinnipartinn fór að dimma. Bleiku skýin hurfu fyrir gráleitum og ljótum skýjum. Ekki sást lengur í himininn og þegar kvölda tók var heimurinn ekki eins æðislegur og hann var um morguninn eða kvöldið áður. Daginn eftir var ástandið enn verra og heimurinn var alls ekkert æðislegur. Hann var ömurlegur, óspennandi og allt var erfitt. Ég var ofurviðkvæm og grét yfir heimatilbúnum og ímynduðum vandamálum. 

Fyrir fjórum eða fimm árum síðan hefði ég ekki kippt mér mikið upp við þessa þróun. Í gegnum tíðina er ég búin að vera að glíma við þunglyndi og ég hefði tekið þessu sem enn eitt þunglyndiskastið. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og þunglyndið er að mestu á bak og burt. 
Ef að ekki hefði verið fyrir talsverða umræðu um domdropp þá hefði hefði ég örugglega kennt þunglyndinu um þessa líðan. 

Domdrop væri hægt að kalla bara leikfall á okkar ástkæra ylhýra. Þetta er einfaldlega spennufall eftir góðan leik. Ég las mér til inni á fetlife og fékk góða skýringu á þessu fyrirbæri. 

Þegar við leikum þá erum við að leika með efnin í hausnum okkar. Dópamín, serótónin, endorfín og allt annað sem endar á -ín og gefur okkur þessar góðu tilfinningar. Í miklum leik eða í leik við erfiðar aðstæður er meira álag á þetta kerfi okkar. Heilinn tæmir allar birgðargeymslur af þessum gleðigjöfum þannig að okkur líður rosa rosa vel! Við svífum um á bleikum skýjum og heimsækjum LaLaland eins og ég hef heyrt það nefnt. 
Svo þegar frá líður og lífið heldur áfram sinn vanagang kemur fram skortur á þessum efnum. Eftir að hafa dælt þeim öllum út í leik á heilinn ekki nægjanlegt magn af þeim til að anna daglegri eftirspurn. Skorturinn á þessum efnum birtist í vanlíðan af ýmsu tagi. 

Einn fetlingur skrifaði að þetta þekktist líka í viðskiptaheiminum, eftir stórar og skemmtilegar ráðstefnur þá finndi fólk oft til depurðar og vanlíðunar á einhverjum tímapunkti eftir. Ég gat strax tengt við það. Þegar ég var yngri var það bókað mál að eftir mót einhverskonar þá fékk ég alltaf spennufall með tilheyrandi viðkvæmni og vanlíðan. 

Þegar ég horfi til baka þá ætti leikfallið ekki að hafa komið mér neitt á óvart. Ég var þreytt, ég var ekki eins vel undirbúin og ég hefði viljað vera, ég var að leika fyrir framan aðra manneskju í fyrsta skipti og ég hitti þessa manneskju í fyrsta skipti korter í leik. Eitt atriði af þessu hefði ekki skipt neinu máli. Tvö atriði hefðu skipt minna máli en saman komið hafði þetta sitt að segja.  

Annar fetlingur sagði þetta sem svo: Líttu á þetta sem þynnku eftir frábæran leik... 
Þetta er þá í fyrsta skipti sem ég upplifi almennilega þynnku. 

Ummæli

Vinsælar færslur