Kynlíf og borgin

Veðrið hefur síður en svo leikið við landsmenn í sumar. Á einum rigningardegi kom ég heim úr vinnunni og hlammaði mér fyrir framan imbakassann og horfði á nokkra þætti af Carrie og co í Kynlíf og Borgin (e. Sex and the city). Í einum slíkum greinist Miranda með klamydíu. Persónan tekur þessu á engan hátt alvarlega en lætur meðhöndla sig við sjúkdómnum. Í kjölfarið segir hún Steve, þáverandi kærasta, frá því og hann veit ekki einusinni hvað það er!

Núna finnst mér íslendingar ekki vera þjóðanna skarpastir í þekkingu á kynsjúkdómum. Ég held samt að maður geti spurt hvern sem er, yfir 16 ára, um klamydíu og viðkomandi getur allavega sagt að það sé kynsjúkdómur. Hmm... Kannski er ég núna að lofa upp í ermina á mér, en þetta er allavega eitthvað sem ég vil trúa.

Að sama skapi vona ég heitt og innilega að persónan Steve endurspegli ekki þorra Bandaríkjamanna með vanþekkingu sinni á kynsjúkdómum. Bandaríkjamenn hafa reyndar farið þá leiðina að biðla til unga fólksins að vera skírlíft frekar en að fræða það um afleiðingar kynlífs, svo það er aldrei að vita.

Ummæli

Vinsælar færslur