Leka fatan

Ég hef stundum sagt að ég lifi á hrósi. Eflaust finnst mörgum þetta vera ýkjur, enginn lifir bókstaflega á hrósi, en ég hef komist að því að fyrir mína hamingju skiptir það gríðarlega miklu máli. Ég er líka þannig að eitt hrós dugar mér skammt og áhrif hróss dvínar þegar frá líður. Þú getur sagt mér að ég sé frábær í dag en ég mun sennilega ekki telja að það eigi við um mig á morgun, eða hinn. Til að skýra þetta betur þá hef ég notast við myndlíkinguna um leku fötuna.

Innra með mér er fata sem hefur merkimiðann sjálf. Í hana fara allir hlutir sem ýta undir sjálfið, hvort sem um ræðir sjálfstraust, sjálfsöryggi, sjálfsmynd eða sjálfs-eitthvað annað. Ofaní þessa fötu fer allur góður árangur, umbun, góð athygli og síðast en ekki síst: Hrós.
Þegar fatan er full líður mér vel. Ég er full af orku og líf mitt einkennist af hamingju, gleði og smá galsa. Þegar hinsvegar fatan er tóm þá líður mér ekki vel. Ég efast um allt og alla, er viðkvæm og dreg mig inn í skel mína. 
Gallinn við þessa fötu mína er að hún mjókkar niður, er óstöðug og mýglek. Þess vegna þarf stöðugt að vera að fylla á hana. Ef að ég fæ ekki góðan árangur af því sem ég tek mér fyrir hendur dvínar sjálfstraustið. Ef að einhverra hluta vegna mér finnst ég ekki fá umbun sem erfiði þverr sjálfsöryggið. Og án þess að fá góða athygli og hrós þá aflagast sjálfsmyndin. 
Tíminn hefur mikið að segja um yfirborðshæð fötunnar því með tímanum minnkar í fötunni. Stórt afrek valda því að fatan er barmafull en hægt og rólega þá lekur innihald fötunnar út og eftir því sem yfirborðið lækkar því hraðar er fatan að tæmast. 
Áföll og vonbrigði geta einnig ýtt við henni þannig að hún veltur til og frá og innihaldið skvettist í allar áttir. Einstaka sinnum kemur það fyrir að hún hreinlega dettur á hliðina og tæmist í einni svipan. 
Það hafa sjálfsagt allir einhverja svona fötu í einni eða annarri mynd innra með sér. Sumar fötur eru eflaust litlar, svo það þarf ekki mikið til að fylla þær. Aðrar fötur leka ef til vill ekki, þannig að hrósið í dag hefur alveg sömu þýðingu fyrir viðkomandi á morgun, og hinn, og hinn.... og kannski hinn líka. Enn aðrar fötur eru kannski stórar og stöðugar, þannig að það þarf mikið til að hagga yfirborði þeirra. 
Föturnar eru án efa jafn misjafnar eins og við erum mörg. Ég þekki bara mína og veit að ef að það er ekki fyllt á hana reglulega þá kemur það hressilega niður á mér. Árangursríkasta leiðin til að fylla á fötuna mína er með hrósi, hvernig eða hvaðan sem það kemur. Allt hrós telur þó sumt vegi vissulega þyngra en annað. 

Það er kannski ekki hægt að segja að ég lifi bókstaflega á hrósi, það væri ofureinföldun. En það er svo sannarlega lykilhlekkur í lífshamingju minni. 

Ummæli

Vinsælar færslur