Sogbletturinn ógurlegi!

Í sumar sem leið hitti ég einn leikfélaga í leik. Leikurinn var æðislegur á sinn hátt og mögulega efni í stutta sögu. Leikurinn hófst á ástríðuþrunginn hátt þegar leikfélaginn réðst á hálsinn á mér með munninum... Í kjölfarið gerðist eitt og annað sem þið fáið kannski að lesa meira um seinna.

Leikurinn leið undir lok og þegar ég var að tygja á mig spjarnirnar aftur var mér litið í spegill. Viti menn, ég var með stærðarinnar sogblett á hálsinum!! 

Í vinnunni minni með unglingum horfir maður á þessa bletti svolítið kíminn. Maður veit að að baki þeirra liggur forvitni, fikt, fíflagangur og/eða mögulega eru þeir vísbendingar um fyrsta skotið, fyrstu ástina eða fyrstu reynsluna. Ég sem sagt hef alveg gaman af þeim... á öðrum. Ekki á mér! 

Ekki þegar ég er 29 ára gömul, ráðsett og allt það. Þá eru þessir blettir allt annað en skemmtilegar og sætar vísbendingar um æskuforvitni og fíflagang. Mér finnast þeir vera einfaldlega druslustimplar, ljótir, óaðlaðandi og ég myndi aldrei láta sjá mig með sogblett á hálsinum! Aldrei! 

En þarna var ég samt, í Höfuðborginni (ég bý úti á landi) í frekar flegnum bol og ekki með neitt til að hylja þetta og þar að auki á leiðinni í mannfagnað, með mjög áberandi sogblett á hálsinum. Niðurlægingin var svakaleg. Stolt mitt var sært.... og innst inni, alveg innst inn við beinið, þá fílaði ég þetta svolítið. Það er, held ég, þetta með niðurlæginguna. Hún hefur verið mér svolítið hugleikin undanfarnar vikur og mánuði.

Þar sem þetta var á sunnudegi þá var ferðinni snúið í Kolaportið hið snarasta og þar gróf ég upp klút sem gerði sitt gagn við að hylja sogblettinn. Ofaná það gerði ég mér upp hálsbólgu á þessum annars sólríka og hlýja sumardegi og einhvernveginn slapp þetta til.
Næstu daga glímdi ég við þráláta uppgerðarhálsbólgu og var með eitthvað til að hylja hálsinn á mér þangað til bletturinn var orðinn það ljós að ég gat sagt að þetta væru einhver óútskýrð útbrot. Frænka mín hafði nú samt orð á því að þetta væri eiginlega alveg eins og sogblettur. Ég kom þá alveg af fjöllum og þóttist ekkert hafa spáð í það. En skemmtileg tilviljun. ;o)

Ummæli

Vinsælar færslur