Ég fékk athugasemd við síðasta pósti og þessi athugasemd angrar mig.

Hún angrar mig af því að hún angar af sleggjudómum og þekkingarleysi. Hún angrar mig af því að hún er dómhörð og einfaldlega á ekki rétt á sér. Hún angrar mig af því að þessu er hent fram af svo óígrunduðu máli að það nær engri átt. Hún angrar mig af því að ég er hrædd við að hún endurspegli hugsun hins almenna borgara. Hún angrar mig af því að allt í einu er ég komin í vörn með skrifin mín, sem að ég reyni eftir fremsta megni að hafa fræðandi, fordómalaus, opin og heiðarleg.

Í fyrstu tók ég þetta nærri mér og varð virkilega reið.

Hvernig getur þessi manneskja leyft sér að henda fram svona sleggjudómum? Enginn bankar upp á hjá henni og biður hana um að réttlæta það sem hún er að gera; afhverju hún lifi þeim lífstíl sem hún lifir; hvað hún fær út úr þeim athöfnum sem undirstrika hennar samband við sína nánustu? Þannig að afhverju ætti ég þá að gera það? Fyrir utan það, hvað veit þessi manneskja eiginlega um þennan heim eða almennt um annarra manna sambönd? Hver gaf henni þann rétt að kalla þetta “rugl” fremur en eitthvað annað?
Hvernig dettur henni í hug að efast um það að sé ást og umhyggja í BDSM samböndum? Gat hún í alvörunni lesið það út úr einni færslu að af því að sum sambönd styðjast við einhverjar reglur þá séu nær öll BDSM sambönd laus við ást og umhyggju?


Á eftir reiðinni þá langaði mig svolítið til að fræða þessa manneskju, sýna henni fram á hvernig þessi heimur virkar og réttlæta þetta gagnvart henni. 

Í fyrsta lagi þá er þetta ekki rugl. Hver og einn hefur rétt á að lifa sínu lífi eftir sínu höfði á meðan allir eru öruggir, samþykkir og meðvitaðir um það sem fram fer og engin lög eru brotin. Hvað fólk fær út úr þessu er mismunandi eins og fólk er margt. Þetta er þeirra kikk allt eins og sumt fólk fær kikk út því að hoppa úr flugvél í fallhlíf (talandi um rugl hegðun). Lífeðlislega má benda á dópamín og noradrenalín flæði á meðan á leik stendur, vímunni sem því fylgir og annað þessháttar. En þegar öllu er á botnin hvolft þá er þetta eitthvað sem fólk hefur ánægju af og þar við situr.
Hvað varðar ást og umhyggju þá eru þetta einmitt samböndin sem fólk leggur vinnu í og ræktar, þetta eru samböndin sem byggja á traustum grunni og góðum samkiptum. Þetta eru einmitt samböndin þar sem ást og umhyggja ráða ríkjum. Vísindalega hefur meira að segja verið sýnt fram á að nánd í BDSM samböndum er meiri í gerist og gengur.
Í fordómafullum heimi þar sem allt á að vera slétt og fellt og fólki verðu öllu lokið við að einhver fái eitthvað út úr svona rugli, þá þarf einmitt traust og trúnaður, ást og umhyggja að vera til staðar í samböndum til að fólk yfir höfuð þori að fara í þessa óhefðbundnu átt.
Rannsóknir hafa líka bent til þess að þessi hneigð manna til BDSM iðkunar hafi fylgt manninum frá örófi alda og sé algengari en samkynhneigð.

Þegar ég var svo búin að draga upp öll möguleg og ómöguleg rök og réttlætingar fyrir BDSM iðkun í huganum og enn kraumaði í mér þá áttaði ég mig á því að ég væri bara að eyða púðri. Það kemur mér ekki við hvaða skoðun þessi manneskja hefur á því sem ég er að gera eða ekki að gera. Hvað ég geri á mínu heimili bak við luktar dyr er ekki hennar mál. Ég þarf ekki að réttlæta það fyrir henni eða nokkrum öðrum. Ég þarf ekki að draga upp rök fyrir því sem ég er að gera og útskýra að það er jú víst allt í lagi, vísindalega sé búið að sýna fram á það og með skýrum ramma og öryggi að leiðarljósi verði engum meint af. Ég veit þetta allt saman. Mínir leikfélagar vita það. BDSM samfélagið í heild sinni veit þetta. Með upplýstara samfélagi sem við búum í þá vita þetta stöðugt fleiri.


Þegar upp er staðið er það eina sem þessi ágæta manneskja var að gera með þessari athugasemd er að uppljóstra eigin fordómum og fáfræði. Ég trúi því að meðal lesenda minna sé hún í minnihlutahóp, ekki ég eða þið.

Ummæli

Maggi sagði…
Góðir punktar hjá þér. Ég er allveg sammála þér varðandi flest en ég er ekki allveg viss hvort það sé rétt eða réttara að segja að þessi manneskja sé að uppljóstra um fordóma eða fáfræði. Oft á tíðum skapast fordómar af fáfræði. Þannig að þetta gæti verið sami hluturinn.

Ég held að hinum almenna borgara sé almennt slétt sama hvað kínkí fólk gerir í sínum svefnherbergjum.

Vinsælar færslur