Óskafærsla

Ekki alls fyrir löngu var óskað eftir þessari færslu. Kröfurnar voru ekki miklar, viðkomandi vildi bara að færslan væri um hann, að öðru leiti voru efnistökin alveg frjáls.

Ég hef mjög gaman af því að fá svona óskir og þær áskoranir sem fylgja því. Vandamálið í þessu tilfelli var að finna efnistökin, vínkilinn og útgangspunktinn til að ganga út frá. Þegar ég svo fór að leggja höfuðið í bleyti var svosem ekki erfitt að finna eitthvað til að skrifa um og tengja það rækilega við þennan einstakling.

Svo er gaman að segja frá því að stundum blogga ég fram í tímann og fátt fer meira í taugarnar á þessum en að vita af færslu (sem hann kemur mögulega fyrir í) sem mun ekki birtast fyrr en eftir maaaarga daga. Þar af leiðandi finnst mér ákaflega skemmtilegt að segja honum frá áhugaverðum færslum sem birtast svo ekki alveg strax því að viðbrögðin standa ekki á sér. Þessi færsla er til að mynda skrifuð fyrir mörgum dögum síðan.

Núna er ég að gleyma mér í blaðri.

Það sem ég vildi sagt hafa var að þessi ágæti maður er uppspretta allskonar fróðleiks um BDSM, enda mikill BDSM áhugamaður. Hann hefur sínar eigin skoðanir og viðhorf á málunum og getur talað daginn út og inn um allt sem viðkemur BDSM. Nokkrum sinnum hef ég heyrt hann koma með eftirfarandi samlíkingu á BDSMi og kinky kynlífi. Mér finnst þessi samlíking mjög góð og lýsandi og sett fram á einstaklega skýran og skiljanlegan máta.

Munurinn á BDSM og kinky kynlífi er eins og munurinn á fjallgöngu og göngutúr.

Þegar maður fer í fjallgöngu þá reimar maður á sig gönguskónna, tekur með sér göngustafina, áttavitann og hvað annað sem maður þarf að taka með sér í fjallgöngur. Maður ákveður leiðina fyrirfram og er vel undirbúinn fyrir komandi átök. Hinsvegar þegar maður fer í göngutúr þá hendir maður sér bara í strigaskónna og arkar af stað. Oft er maður ekki búinn að ákveða fyrirfram hvert förinni er heitið og finnur það bara út jafn óðum. Það getur vel verið að maður arki hlíðar og fjöll og fari leiðir sem myndu vel henta sem léttar, eða meira að segja erfiðar, fjallgöngur án þess að hafa planað það fyrirfram. Maður arkar þetta bara á strigaskónum með engan sérstakan búnað og án þess að spá í mögulegar áhættur.

Eins er það með BDSM og kinky kynlífið. Þegar um BDSM leik er að ræða er venjulega búið að kortleggja leikinn fyrirfram, ákveða stefnu og mörk, hvað má og hvað ekki. Eins þá er búið að velta fyrir sér öryggisatriðum og áhættum, eins og til dæmis að ef það er bundið of fast getur það valdið taugaskaða. Öryggisskærin eru því við höndina og sleikjóinn til að koma blóðsykri bandingjans upp aftur eftir leikinn. Hinsvegar þegar um kinky kynlíf er að ræða þá er bara hendst af stað án þess að velta fyrir sér förinni eða áfangastaðnum. Í hita leiksins eru gerðir hlutir sem ekki endilega hafa verið ræddir og áhöld, tæki og tól sem eru við höndina notuð í verkið. (Það má reyndar gera alveg helling með venjulegum eldhúsáhöldum, eins og pönnukökuspaða.) Hver hefur svo sem ekki misst sig í lostanum og rassskellt rekkjunautinn, haldið honum niðri eða haldið höndum viðkomandi föstum? Eða dregið fram klúta eða bindi til að binda fyrir augun á rekkjunautnum eða til að binda hann við rúmgaflinn?

Það sem sumir gera í kinky kynlífi er ekkert endilega frábrugðið því sem aðrir gera í sínum BDSM leikjum. Munurinn felst í skipulaginu, undirbúningnum og örygginu. Sumir vilja meira að segja ganga það langt að segja að allt kynlíf ætti að lúta sömu viðmiðum og BDSM leikir gera. Það sem gert verður ætti að vera fyrirfram rætt og samþykkt áður en til þess kemur. Öryggið ætti líka alltaf að vera í fyrirrúmi, Þannig að allt sem gert verður er alltaf öryggt, samþykkt og meðvitað.

Ummæli

Vinsælar færslur