Allir í viðbragðsstöðu!!!

Gráir skuggar í ýmsum litbrigðum eru á leiðinni í kvikmyndahús landins!!!

Ég rakst á þessa og þessa frétt í morgun. Báðar í tengslum við téða kvikmynd sem verður frumsýnd um helgina. Ég meira að segja heyrði útvarpsumfjöllun á leiðinni í skólann í dag um myndina og kauphegðun BDSM hneigðra.
Perralingar ýmist hrista hausinn eða glotta í kampinn yfir myndinni og bókunum. Sumir tala um hópferð á myndina á meðan aðrir ætla að sitja sem fastast heima fyrir og loka augunum eða skipta um stöð ef að auglýsing um hana birtist.

Hvað er það sem er svona slæmt við þetta? Öll umfjöllun sem dregur BDSM upp á yfirborðið og ýtir undir umræður um það er af hinu góða, tjah, á meðan það heyrast raddir skynseminnar sem segja skýrt og skorinort að þetta er ekki ofbeldi og á sér aðeins stað með upplýstu samþykki allra. Málið er að það er einmitt ekki þannig í sögunni. Ég las að vísu bara fyrstu bókina, svo öll umfjöllun mín byggir á henni.

Hvað meinaru með að þetta sé ekki þannig í sögunni? Jú, Krissi er kinky, Ana er það ekki. Hann setur kinkyheitin sem skilyrði fyrir sambandi þeirra og tekur fyrir hefðbundið vanillu samband. Hún er hinsvegar brjálað hrifin af honum og leyfir honum að gera eitt og annað við sig í nafni ástarinnar. Innst inni vonar hún að hún geti breytt honum með ást sinni.... eða eitthvað svoleiðis. Í mínum huga er þetta rauð ástarsaga í dökkri kápu. Fantasía sem á enga stoð í raunveruleikanum. Í raunheimum væri samband þeirra mjög óheilbrigt og það jaðrar oft við andlegt og líkamlegt ofbeldi.

Hvernig á þetta þá að vera? Forsendurnar fyrir BDSM sambandi er að allir aðilar séu upplýstir og samþykkir því sem fram fer. Að báðir aðilarnir vilji þetta og séu sáttir. Það er ekki þannig hjá Önu og Krissa. Í raunheimum setjast leikfélagar niður, ræða langanir, mörk og leiðir til að komast þangað. Ræða hvað skiptir máli og hvað skiptir minna máli. Hvað verður að vera og hverju má sleppa. Ef til vill þarf að hliðra einhverju og þá er það gert. Aldrei settust þau Ana og Krissi niður og ræddu málin af yfirvegun. Aldrei var sameiginlega leiðin fundin sem þau voru bæði fullkomlega sátt við. Alltaf hallaði á annað hvort þeirra.

Hefði Ana verið á fetlife.com og leitað sér ráða í hópnum undirgefnar konur (e. submissive women) hefði henni verið sagt að sleppa því að eltast við Krissa og forða sér frá honum. Frekar að vinna í sjálfri sér og finna það út hvað það er sem hún vill, óháð honum. Henni hefði verið ráðlagt að læra að elska sjálfa sig, byggja sig upp og vera hamingjusöm í eigin skinni. Henni hefði verið bent á hættumerkin, hann er paranojaður, afskiptasamur, virðir ekki mörk, óþolinmóður, ósveigjanlegur og svolítið sjálfselskur. 

Gráir skuggar hafa opnað augun fyrir mörgum að BDSM sé til og að það sé í lagi og að það sé fólk að stunda það. Það er frábært. En þrátt fyrir allt þá er sagan sjálf bara það, saga, fantasía sem ekki er hægt að alhæfa yfir á raunheima. 

Ummæli

Vinsælar færslur