Gagnvirkni

Enska orðið reciprocity er orð sem google vill þýða sem gagnkvæmni en í mínu námi var talað um gagnvirkni. Það virkar þannig að einn hlutur hefur áhrif á annan, sem hefur svo áhrif til baka, og þannig koll af kolli. Við höfum áhrif á fólkið í kringum okkur, og það hefur áhrif á okkur, og þeirra áhrif á okkur hefur svo aftur áhrif á þau í gegnum okkur. Það tók mig smá tíma að átta mig á þessu hugtaki.

Ég er svona. Ég er svona gagnvart öðru fólki og gagnvart leikfélögum og rekkjunautum.
Ég hef áhuga á þeim, og minn áhugi á þeim kveikir þeirra áhuga á mér, og sá áhugi sem þeir sýna mér kyndir enn frekar undir áhuga minn á þeim. Gaman gaman! Þannig á það líka að vera.
Nema þegar því er öfugt farið. Það hefur komið fyrir oftar en einusinni og oftar en tvisvar að einhver hefur kynnt verulega mikið undir áhuga minn. Það er, ég hef laðast verulega mikið að manneskjunni með þar til gerðum fantasíum, hugarórum, löngunum og þrám. Ég hef mögulega sýnt henni áhuga. Ég hef án efa drekkt nokkrum af þessum einstaklingum í athygli og hef sjálfsagt farið yfir ein eða tvenn velsæmismörk í leiðinni. Allt þetta á sama tíma og þessir einstaklingar hafa ekki haft gagnkvæman áhuga á mér.
Það hefur komið fyrir að ég hef náð mínu fram. Ég hef uppskorið eins og ég vildi, því ég lagði nógu hart að mér. Mér hefur tekist að sannfæra rekkjunaut um bólfarir eða leikfélaga um BDSM leik. Af því að ég vildi það en aðeins með hálfum huga mótleikarans. En við það að finna að mótleikarinn var aðeins með hálfann huga við verkið hefur það orðið til þess að slökkva allan minn áhuga á frekari kynnum með viðkomandi.
Þannig virkar gagnvirknin líka. Ef að áhuga manns er ekki svarað, þá deyr hann. Í mínu tilfelli mjög fljótt.
Ég hef einfaldlega ekki áhuga á að eyða tíma mínum og orku í fólk sem hefur ekki áhuga á að eyða tíma sínum eða orku í mig.

Ummæli

Vinsælar færslur