Gunga

Það verður að segjast alveg eins og er: ég er gunga.

Ég er algjör gunga og oft á tíðum hreinlega heigull. Ég ber það kannski ekki með mér en þegar kemur að samskiptum kynjana er ég einhver sú mesta gunga sem gengið hefur á yfirborði jarðar. Nei, ég veit, ég er aðeins að ýkja þetta núna. Það er samt mikið sannleikskorn í þessu.
Ég get ekki fyrir mitt litla líf sýnt í eigin persónu að ég hafi áhuga á einhverjum. Ég get verið rosalega hrifin og heit fyrir einhverjum og mitt besta trix er að hunsa viðkomandi. Helst að vera ekki of nálægt honum og dáðst bara að honum í fjarska. Fara svo hjá mér og missa málið ef að hann kemur of nærri mér. 

Afhverju er ég að velta þessu upp núna? 
Sko, málið er að ég á mér fantasíu sem ég hef aldrei látið verða að veruleika. Mig langar að fara í gleðskap, mig langar að hitta sætan strák og mig langar að sofa hjá viðkomandi sæta strák. Það er partur af fantasíunni að þetta sé einhver sem ég þekki lítið sem ekkert fyrir. Helst einhver sem ég hitti í fyrsta skiptið í þessum gleðskap. -Þarna hafið þið fantasíuna. Ofan á það þá má ég láta þessa fantasíu mína rætast. Ég hef meira að segja skellt mér gagngert út á lífið til að hitta sætan strák og snýkja gistingu með fríðindum hjá viðkomandi. En alltaf án árangurs. 

Svo núna um helgina þá skellti ég mér í bæinn, með tveimur vinkonum meira að segja. Þeir segja að það sé best að vera í slagtogi með tveimur vinkonum ef að maður vill veiða, með því móti þá er maður ekki að skilja vinkonuna eftir eina ef að einhver bítur á agnið. Á einum staðnum hittum við sætan strák. Eftir örstutt spjall kviknaði áhugi hjá mér. Hann var líka ferlega sætur, hávaxinn og herðarbreiður, með bros til að deyja fyrir og glettið stríðnisblik í augum. Ég er meira að segja ekki frá því að hann sýndi mér líka smá áhuga. Þegar leið á kvöldið var ég orðin alveg viss um að ég vildi sofa hjá honum þá nóttina. Heigullinn sem ég er gat hinsvegar ekki komið þessu til skila og kvöldið leið og ekkert varð úr neinu. 
Nema minningin um þennan sæta strák og söknuðurinn um það sem kannski hefði getað orðið. Svekk. 

Ummæli

Vinsælar færslur