Enn eina ferðina sit ég hérna með tölvuna í fanginu og blogger gluggann opinn. Ólíkt öllum hinum skiptunum undanfarnar tvær vikur þá birtast í hugskotum mér myndir og fingurnir dansa á lyklaborðinu sem framkalla stafi og orð.
Ástæðan fyrir því að ég hef ekki verið að blogga er ekki sú að ég hef ekki haft frá neinu að segja. Ég virðist vera stödd í einhverskonar kink-rússíbana þessa daga og vikur, hvert leiktækifærið á fætur öðru hefur átt sér stað og aðrir spennandi hlutir eru að skjóta upp kollinum. Hinsvegar hefur á sama tíma gamall kvilli verið að plaga mig mikið.
Þið sem hafið fylgst með blogginu mínu vita að ég hef verið að glíma við þunglyndi, fyrir ykkur hin þá eru þetta fréttir. En þannig er mál með vexti að undanfarið hef ég att mikla baráttu við þennan þráláta sjúkdóm. Ég hef verið dugleg að gera hluti sem gera mér gott, þannig að í hvert skipti sem einhver BDSM viðburður á sér stað set ég upp sparibrosið, geri mér upp glaðværð og skelli mér. Iðullega líður mér betur á eftir en það koma dagar þar sem ég er ofur-viðkvæm og brothætt og hætti mér ekki út úr húsi.
Ég hef frá svo mörgu spennandi og skemmtilegu að segja. Einhvernveginn hef ég mig samt ekki í að skrifa það niður og birta það.

-Ég gæti sagt ykkur frá fallegu hálsólinni sem ég sá um daginn, sem leiddi til smá hugleiðingar um gildi hálsóla fyrir drottnandi og undirgefna aðila.
-Ég gæti sagt ykkur frá nýja, fallega og glansandi dótinu mínu og hvernig ég fann alveg nýjan stað í afbrigðilegum hugskotum mínum. Það vekur möguleika á allskonar skemmtilegheitum og leikjum.
-Ég gæti sagt ykkur frá partýinu sem ég fór í um daginn, þar sem leikið var í öllum hornum og rjóminn af perralýð landsins mætti til að blanda geði.
-Ég gæti sagt ykkur frá tveggja manna nektarkaffinu sem ég hélt fyrir einhverjum vikum síðan, sem leiddi til þess að um daginn sátum við sjö saman, nakin með kaffibolla við hönd og ræddum heimsins gagn og málefni.
-Ég gæti sagt ykkur frá Píslargerpinu mínu, sem er yndislegur undirgefinn aðili sem ég (mér til mikillar furðu) er farin að þróa samband við.
-Ég gæti sagt ykkur frá því hvernig mitt eigið samband er að þróast yfir í fjölelskandi samband þar sem við hjónaleysin bæði erum með leikfélaga utan sambandins.
-Ég gæti sagt ykkur frá annarri vinkonu minni sem er að stíga sín fyrstu skref í átt að BDSM iðkan.

Ég gæti sagt ykkur hvernig allir þessir þættir fléttast saman og mynda kinky vef sem virðist vera líf mitt þessa dagana, samt orka ég það einhvernveginn ekki. Ég sakna þess að blogga, ég sakna lesenda minna. 
Ég fylgist með og sé að enn fæ ég slatta af heimsóknum á dag. Ég vona að ég haldi í þær þrátt fyrir stopul skrif mín. Ég ætla ekki að lofa því að skrifin aukist. Núna hef ég hinsvegar gert hreint fyrir mínum dyrum svo þið lesendur góðir vitið að ég er ekki dáin (ég dett sjálf í svona öfgafullar hugsanir ef að einhver gufar upp í þeim netsamfélögum sem ég er hluti af), ég er bara svolítið lasin núna.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Hæ! Ég er búin að vera fylgjast með blogginu þínu í nokkra mánuði núna og það hefur bæði aukið áhuga minn á BDSM og opnað augu mín meira inní þennan heim! Vildi þakka þér fyrir það :). En ég er í sambandi sjálf og hefði áhuga á að heyra hvernig sambandið þitt þróaðist í eins og þú segir fjölelskandisamband. Vona þér batni og hafðu það gott! <3

Vinsælar færslur