Eftiralúð

Það er yndislegt að leika, það er unaðslegt að leika við leikfélaga sem passar manni og það gefur manni meira en flest annað. Hvort sem maður er að domma eða subba. Þessa dagana hef ég aðallega verið í því að domma. Ég hef ekki subbað í óra- óratíma og ef satt best skal segja þá er sú löngun ekki mjög sterk þessa dagana. Kannski er það af því að ég hef ekki fastan drottnandi leikfélaga og sé eiginlega ekki tilganginn á stöku leik hér og þar. Annars er ég bara sátt í sinni svo það kemur ekki að sök.

Ég hef tekið nokkra frekar erfiða leiki með píslargerpinu mínu. Það eru leikir sem reyna mikið á hann líkamlega og mig andlega. Leikir þar sem hann er rassskelltur honum nánast til óbóta. Leikir þar sem hann emjar og skrækir og iðar til að komast undan höggum.
Þar sem að hann er hann þá kemur hann iðullega með einhverja hnittna og ósvífna athugasemd um leið og höggunum linnir. Það verður auðvitað til þess að maður tekur upp eitthvað annað áhald, helst verra en það síðasta, og heldur áfram að dangla í hann. Það er jú ekki mönnum bjóðandi að píslargerpi rífi svona kjaft, hvað þá Prinsessum eins og þessari!
Ósvífni hans verður meiri því meira sem hann nýtur leiksins. Þannig að þegar munnsöfnuður hans er orðinn súr og grófur, þá veit ég að hann virkilega nýtur þess sem fram fer.
Oftar en ekki þá er ég skælbrosandi og það hefur komið fyrir að ég hef lippast niður af hlátri út af framgangi og orðbragði hans. Það er svo ekki fyrr en rassinn á honum er orðinn í öllum litum regnbogans, hann rennandi blautur af svita og hás af öskrum að hann er losaður.

Ég hef vanið mig á að strjúka af honum með handklæði um leið og hann er laus, pakka honum svo inn í handklæðið eða teppi, ná í vatnsglas og kúra með honum í nálægum sófa.
Þar föðmumst við, snertumst, kyssumst, brosum og hlæjum. Við ræðum leikinn í lauslega og náum okkur niður saman.

Ég hef komist að því að þessi stund er mér ákaflega dýrmæt. Þarna næ ég mér niður og fæ staðfestingu á því að ég hafi ekki verið of vond, of grimm, ósanngjörn eða farið yfir einhverjar línur og að hann hafi virkilega notið þess sem fram fór, þrátt fyrir öskur, blótsyrði og læti.
Þetta er nauðsynlegur partur af leiknum fyrir mig. Án þessa hluta leiksins fæ ég tómleikatilfinningu og verð óörugg með leikinn og sjálfa mig. Á fagmáli ýtir það undir drop hjá mér.

Ég hef líka komist að því að eftiralúð er mikilvægari fyrir mig sem dómínu en fyrir mig sem undirgefna.
Ég hef meiri þörf fyrir eftiralúð þegar ég er í drottnandi stöðu, þegar ég þarf að gefa af mér og bera ábyrgð á því sem fram fer, aðstæðum, leiknum og hinum aðilanum. Andlega taka svona leikir mikið á, allt er í botni hjá manni og eftir á er maður viðkvæmari fyrir. Svo ég tala nú ekki um þegar maður er viðkvæm manneskja svona almennt.
Þegar ég er undirgefin þá þarf ég "bara" að þyggja og taka á móti því sem mér er gefið.
Þá er ég böðuð athygli í leiknum og veit að það er gætt að mínu öryggi allan tíman. Ég ber þá ekki einusinni ábyrgð á sjálfri mér.
Hinsvegar ber drottnandi aðilinn ábyrgð á mér og sjálfum sér og því sem fram fer og þeim aðstæðum sem við erum í. Það er talsvert stærri pakki finnst mér.

Eftir leiki þar sem ég er undirgefin getur nægt mér að fá gott og innilegt knús áður en eitthvað annað kemst að. Jafn lítið og ég gæti þurft af eftiralúð þegar ég er undirgefin í leik, þeim mun meira þarf ég af henni þegar ég drottna.
Ég hugsa að þetta gæti verið atriði sem jafnan gleymist, eftiralúð fyrir drottnandi aðilann. Útundan mér hefur mér heyrst það á öðrum drottnandi aðilum. Venjan er að athyglin sé öll á þeim undirgefna, hann var jú bundinn og laminn í klessu, stunginn eða kyrktur eða þaðanaf verra. Hann þurfti að þola allt þetta og mögulega meira til. Hann er hálf út úr heiminum eftir leikinn og þarf tíma til að jafna sig og komast niður á jörðina aftur.

Það virðist gleymast að það sama á við um þann drottnandi. Hann var kannski ekki laminn í klessu, en hann lamdi í klessu. Það getur verið líkamlega erfitt, en auk þess er það fullt erfitt andlega. Það þarf að huga að aðstæðunum og öryggi þess undirgefna.  Það þarf að passa umhverfið, áhaldið og aflið sem beitt er. Það þarf að fylgjast grannt með viðbrögðum þess sem tekur á móti og reyna að lesa í þau eftir fremsta megni. Var þetta of þungt högg, of létt, á mörkunum?
Skrækir, kvein og grátstafir toga í andlega strengi og geta kallað fram tilfinningaviðbrögð.
Sá drottnandi ber heiminn á herðum sér á meðan á leik stendur. Lang flestir gera það líka með prýði. En alveg eins og með þann undirgefna getur sá drottnandi verið hálf út úr heiminum eftir leik og þarf tíma til að jafna sig og komast niður á jörðina aftur. Hann þarf sálrænan stuðning, knús og þakklæti. Hann þarf að vita að allt sé í lagi hjá þeim undirgefna, að leikurinn hafi farið vel og að það sem hann gerði var virkilega metið, að vinnan og álagið hafi verið þess virði.

Ég get ekki talað fyrir aðra en mig en leikurinn hefur aðeins gildi ef að sá undirgefni naut hans og kann að meta hann, kann að meta mig og mitt framlag og sýnir mér það. Þá fyllist ég ánægju og stolti og þessari ólýsanlegu tilfinningu um að eitthvað fallegt og einstakt hafi átt sér stað. Þessi tilfinning sem sendir mann brosandi út í daglega lífið. Þið þekkið hana... ;o)

Ummæli

Vinsælar færslur