„Via­gra fyr­ir kon­ur“ loks orðið lög­legt

Svo greindi MBL.is frá núna 18. ágúst. Óneitanlega fannst mér þetta áhugaverð fyrirsögn og ætlaði mér að lesa greinina. Hún endaði hinsvegar í miðri setningu ("Er það fram­leiðand­inn..." og ekkert meira) svo ég fór á stúfana til að komast að meiru um málið.

Lyfið heitir flibanserin og virkar á serótónín og dópamín í heila. Það var þróað sem þunglyndislyf en öfugt við hin hefðbundnu þunglyndislyf virtist það ýta undir kynferðislega virkni hjá konum. Þegar það kom í ljós kviknaði áhugi á að nýta það út af þeim eiginleika.
Flibanserin er hugsað fyrir konur sem hafa lága kynhvöt sem ekki er hægt að rekja til þekktra orsaka. Svo virðist sem 10-20% kvenna þjáðist af þessu ástandi sem nefnt er Hypoactive sexual desire disorder (HSDD) eða inhibited sexual desire (ISD). Uppi eru raddir sem efast um að þetta sé yfir höfuð röskum eða læknisfræðilegt ástand, heldur sé kynhvöt fólks bara mis mikil. 
Ólíkt Viagra®, sem virkar strax eftir að taflan er tekin, þurfa konur að taka flibanserin á hverju kvöldi og það tekur fjórar vikur fyrir lyfið að ná virkni. 

Rannsóknir hafa komið með misvísandi niðurstöður. Sumar hafa ekki fundið neinn mun á flibanserin og lyfleysu á meðan aðrar hafa fundið, lítinn, en marktækan mun á því. 
Sem sagt, ríflega 1000 konur fengu lyfleysu og ríflega aðrar 1000 konur fengu flibanserin. Hver og ein kona vissi ekki hvort hún væri að taka virka lyfið eða lyfleysu. Í ljós kom að hjá báðum hópunum jókst kynferðisleg virkni en hún var mæld sem "fullnægjandi kynlífsviðburðir". Hjá þeim konum sem fengu lyfleysu jukust fullnægjandi kynlífsviðburðir úr 2,7 yfir í 3,7 á mánuði. Hjá hópnum sem fékk virka efnið, það er flibanserin, þá fóru fullnægjandi kynlífviðburðir úr 2,8 upp í 4,5. Það munar þá ekki nema 0,8 fullnægjandi kynlífsviðburðum hvort maður tekur lyfleysuna eða lyfið. Sem myndi námundast upp í einn. 

Á mannamáli. Án allra hjálparlyfja stundaði fólkið kynlíf circa þrisvar sinnum í mánuði. Þeir sem héldu að þeir væru að taka lyf til að auka kynferðislega virkni, en voru það ekki, stunduðu kynlíf circa fjórum sinnum í mánuði. Þeir sem héldu að þeir væru að taka lyf til að auka kynferðislega virkni, og voru það, stunduðu kynlíf circa fimm sinnum í mánuði. 
Það munaði því aðeins einu kynlífsskipti á mánuði hvort konurnar tóku lyf eða lyfleysu.

Snúum okkur þá að aukaverkununum. Ekki nóg með að þurfa að taka töflu á dag, í 28-31 dag fyrir circa tvo fullnægjandi kynlífsviðburði til viðbótar á mánuði, þá fylgir því líka leiðinlegar aukaverkanir. Þær helstu eru svimi, ógleði, yfirlið, þreyta, svefnhöfgi og svefnleysi. 
Þess ber að geta að 12,8% þátttakenda sem fengu virka lyfið sögðu sig úr rannsókninni vegna aukaverkana en 5,9% þeirra sem fengu lyfleysu. 

Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) hafnaði flibanserin í tvígang, fyrst árið 2010 og svo árið 2013. Rökin á bak við það voru að aukaverkanirnar séu of miklar til móts við lítinn ávinning umfram lyfleysu. Auk þess sem langtímaáhrif lyfsins væru óþekkt. FDA setti spurningamerki við það hvort að tveir fullnægjandi kynlífsviðburðir aukalega á mánuði væru nægjanlegir eða viðunandi sem meðhöndlun við kynferðislegri vanvirkni. 
Hinsvegar samþykkti FDA lyfið núna í ár, en svo virðist sem það hafi verið einungis vegna pólítísks þrýstings. ISSWSH (International Society for the Study of Women's Sexual Health) söfnuðu einum 4000 undirskriftum sem skoruðu á FDA að samþykkja flibanserin. En auk þess heyrðist mikið í hinum ýmsu kvenréttindahreyfingum um að tími væri kominn á lyf sem myndi hafa áhrif á kynhvöt kvenna, til móts við öll þau lyf sem til eru fyrir karla. 

Ætli það sé þá ekki undir hverri og einni konu komið hvort hún sé tilbúin í þennan pakka og finnist það þess virði. Ég persónulega myndi frekar reyna aðrar tæknir, eins og hugleiðslu, tantra, lestur erótísks efnis og þessháttar áður en ég færi að hugleiða lyf. 
Hinsvegar er ég ekki í þessum pakka alla jafna, eins og síðasta helgi ber vitni um. Þá hefði ég líka klárað mánaðarskammtin af kynlífi, ef að það miðaði við þrjá fullnægjandi kynlífsviðburði á mánuði, á einu bretti.  

Ummæli

Vinsælar færslur