Fjölmiðlafár

BDSM hefur oft ratað í fjölmiðla undanfarin misseri. Umræðan er öll á jákvæðum nótum og fólk virðist almennt viðurkenna að BDSM sé eitthvað sem fólk stundar og að það sé allt í góðu. Hinsvegar eru BDSM hneigðir ennþá inni á íslensku sjúkdómaskránni.
 
BDSM á Íslandi sendi landlækni bréf fyrr í mánuðinum og óskaði eftir því að BDSM hneigðir verði teknar út af íslensku sjúkdómaskránni. Það var ekki fyrr en það birtist viðtal við formann BDSM á Íslandi þar sem þetta var rætt að hjólin fóru að snúast fyrir alvöru. 
Fyrirsagnir sem innihéldu BDSM spruttu upp á hverjum vefmiðli á eftir öðrum og málið var tekið fyrir á að minnsta kosti tveimur útvarpsstöðvum og einni sjónvarpsstöð. Öll umræðan var á eina vegu, að kenndir sem tengjast BDSM séu á engan hátt sjúklegar. Perralingar virtustu eiga samúð þjóðarinnar sem hneikslaðist í hrönnum yfir því að fólk sem stundar athafnir sem eiga sér stað með samþykki allra aðila teljist sjúkt fyrir vikið. Fjölmiðlar voru líka fljótir að hnippa í landlækni og óska eftir viðbrögðum. Hann samsinnti umræðunni og núna er það á dagskránni að taka þetta út úr íslensku sjúkdómaskránni. 
Þetta er eitt stærsta framfaraskref sem tekið hefur verið. Það var furðu létt yfir mér eftir að ég náði að melta þetta. Það er þá ekki hægt að halda því fram að ég sé geðsjúk þó svo ég aðhyllist BDSM. Ef satt best að segja þá vissi ég ekki að þetta íþyngdi mér neitt, þó varð mér létt við þessar fréttir. Ég fann til ákveðins frelsis við þetta og það er ekki laust við að mig langi til að fagna. 

Hinsvegar ætla ég að geyma það þangað til þetta er formlega komið í gegn. 

Ummæli

Vinsælar færslur