Gullmolar

Í nótt dreymdi mig illa. Ég vil ekki fara nánar út í drauminn sjálfann en þetta var einn af þeim sem maður vaknar af og líður hreint ekki vel. Ég hnippti í sofandi kærastann, sem eins og á sjálfstýringu velti sér yfir á bakið svo ég gæti lagst í fangið á honum. Hann tók þétt utanum mig og þannig sofnaði ég aftur.
Einhverju seinna rumskaði ég við það að hann hélt ennþá utanum mig og var að strjúka á mér bakið. Strokurnar voru afslappaðar, róandi og báru með sér allt í senn, umhyggju, ílöngun og ást.
Hann strauk létt yfir kollinn á mér og niður með bakinu, alveg niður á mjóbak. Svo strauk hann aftur upp, en þá var takið þéttar, eins og hann vildi fá mig enn nær sér, Hann leyfði höndinni að leika um bakið á mér, klóraði mig smá og strauk laust og þétt á víxl. Að endingu hélt hann mér þétt að sér í smá stund og hvíslaði ástarorðum í eyra mitt. Svo var hann aftur horfinn inn í draumalandið og fljótlega fylgi ég á eftir.

Það eru þessi litlu augnarblik sem eru mér svo óendanlega dýrmæt, lítil atlot sem einhvernveginn skila sér margfalt til baka og gera sambandið að því sem það er.

Ummæli

Vinsælar færslur