Samskipti

Hérna hef ég prédikað mikið um gildi góðra samskipta, ég hef meðal annars tekið dæmi af dómsmáli sem ekki hefði þurft að koma til hefði fólk bara talað saman.
Hinsvegar hef ég aldrei krufið þetta til mergjar.

Samkvæmt rannsóknum þá eigum við samskipti að lang mestu leiti án orða. Rúmlega helmingurinn, eða 55%, koma til vegna líkamstjáningar. Tónfall fær heil 38%. Þannig að eftir standa aðeins 7% fyrir orðin sjálf. Það skiptir þá lang mestu máli hvernig við segjum hlutina og minnstu máli hvað við segjum. Sem dæmi um þetta getur setningin „hvað ert þú að gera?“ haft ótal merkingar. Hún getur sýnt forvitni spyrjanda, hún getur verið ásakandi og reiðileg, hún getur verið notuð til að greina þig frá hinum og svona má lengi telja. Ef að við höfum ekki aðstæðurnar, líkamstjáninguna og tónfallið þá segir hún okkur óskup lítið svona ein og sér.
Í netsamskiptum getur þetta verið sérstaklega hættulegt. Í netsamskiptum er mikið svigrúm fyrir misskilning af hvaða tagi sem er. Okkar eigið dagsform og líðan hefur mikil áhrif á það hvaða merkingu við leggjum nákvæmlega í orðin. Ef að maður er pirraður leggur maður neikvæðari merkingu í öll skilaboð en ef maður er í góðu skapi er allt jákvæðara.

Svo skiptir líka höfuð máli hvernig maður sjálfur bregst við öðrum. Ég heyrði eitt sinn að þessu væri skipt í fjóra flokka.

1. Virk-jákvæð viðbrögð. Þau einkennast af því að maður tekur öllum vel og notar virka hlustun. Maður sýnir viðkomandi áhuga og kemur með uppbyggjandi innskot og athugasemdir, sem sýna að maður er virkilega að hlusta og taka eftir. Dæmi um þetta er þegar ein vinkona kemur til þín og trúir þér fyrir því að hún sé skotin í strák. Þú segir við hana: En skemmtilegt, hann er líka rosalega sætur og öllum líkar vel við hann. Ég vona að þetta gangi upp hjá ykkur, ég vil vita allt um það sem er að gerast. Með þessu móti býðuru vinkonuna velkomna og sýnir henni að þú virðir hana sem manneskju, finnist hún áhugaverð og hafi frá einhverju áhugaverðu að segja.

2. Óvirk-jákvæð viðbrögð. Þau einkennast af stuttum jákvæðum eða hlutlausum svörum. Maður hlustar á viðkomandi en hefur lítið sem ekkert um málið að segja, hvetur hvorki til umræðu né dregur úr henni. Tökum sama dæmi og síðast. Vinkonan kemur og segir þér frá skotinu í stráknum og þú segir bara: Já, ok. Flott. Með þessu móti ertu búin að samþykkja það sem vinkonan þín segir, en gefur henni ekkert til baka. Þú lokar á umræðuefnið. Hún upplifir áhugaleysi af þinni hálfu og að þú viljir ekki ræða þetta frekar. Sennilega mun hún trúa einhverjum öðrum fyrir skotum sínum næst.

3. Virk-neikvæð viðbrögð. Þau einkennast af því að maður kemur með neikvæðar athugasemdir við það sem viðkomandi hefur að segja og grefur undan því. Tökum aftur dæmið um vinkonuna. Hún kemur til þín og segir þér frá skotinu og þín viðbrögð eru eitthvað á þesssa leið: Í alvöru? Hann er player, þú átt ekki séns í hann. Auk þess er hann búinn að vera með öllum! Er það eitthvað sem þú vilt? Með þessu móti ertu að grafa undan sjálfstrausti og sjálfsáliti vinkonu þinnar. Hún fær að heyra að hún eigi ekki séns og þannig grefuru undan hennar draumum og væntingum og gerir lítið úr henni sjálfri.

4. Óvirk-neikvæð viðbrögð. Þau einkennast af því að í stað þess að hlusta á viðkomandi er maður frekar að bíða eftir því að koma sínu eigin að. Snúum okkur enn og aftur að vinkonunni. Hún er búin að segja þér frá því að hún sé ferlega skotin í strák. Þín viðbrögð við fréttunum eru eitthvað á þessa leið: Já, ok. En ég er að fara í þetta partý á föstudagin..... Með þessu móti ertu að gefa algjörlega skít í vinkonuna. Hún trúir þér fyrir sínu hjartans máli og með því að snúa umræðunni upp á þig ertu að sýna henni að það sem hún er að fást við er lítilvægt, en það sem þú ert að gera er mun merkilegra. Hún upplifir algjört áhugaleysi af þinni hálfu og að hennar líf sé skör neðar en þitt. Þetta hefur áhrif á sjálfsmynd hennar og hún fer ef til vill að efast um að hún sé nógu skemmtileg eða áhugaverð til að einhver eyði púðri í hana.

Samtöl eru eins og að kasta bolta á milli. Með virku viðbrögðunum grípur maður boltann og kastar honum til baka til viðkomandi, en með óvirku viðbrögðunum þá grípur maður boltann en kastar ekki til baka. Þá er boltaleikurinn líka búinn, nema tekinn sé upp annar bolti til að kasta á milli.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar og því er ákaflega mikilvægt að vanda samskiptin vel. Ef að eitthvað er óljóst er alveg óhætt að spyrja. Ef að eitthvað er gott þá á maður endilega að benda á það. Mér hefur oft fundist tilhneigingin vera sú að bent er á það sem miður fer, eða mætti fara betur, en það sem vel gekk eða var framúrskarandi fær ekki athygli sem skyldi.

Ég er svo heppin að hafa lært þetta. Þannig að ég er oftast nær mjög meðvituð um mín eigin viðbrögð og samskipti mín við annað fólk. Í mínum samböndum fer ég fram á góð og skýr samskipti til að girða fyrir misskilning og óþarfa núning eða særindi(sem einhverra hluta vegna koma alltaf verst niður á mér sjálfri).
Ég reyni að leggja áhersluna á það góða og jákvæða og er oft ekki spör á hrósið. Þetta skilar sér líka margfalt til baka, því að launum hef ég hlotið virðingu, vinsemd og væntumþykkju frá fólkinu í kringum mig og það er gjöf sem ekki er metin til fjár.

Ummæli

Vinsælar færslur