Stefnumót

Ég fór á stefnumót í dag. Tja... margir myndu eflaust bara kalla þetta stuttan hitting, en mér finnst stefnumót miklu skemmtilegra orð að nota.

Ég var ekki búin að tala við þennan mann af neinu viti. Við höfðum skiptst á örfáum stuttum skilaboðum inni á einum helsta stefnumótavef landins. Hann var í grendinni við fjarkanistan og við ákváðum að nýta tækifærið og hittast bara. Þetta var örstuttur hádegishittingur.
Þegar ég var svo að taka mig til í morgun uppgvötaði ég að ég er komin á allt annan stað andlega en í gamla daga.
- Í gamla daga hefði ég verið með hnút í maganum yfir því að vera að fara að hitta einhvern svona af netinu. sérstaklega eftir svona stutt spjall. Í morgun var ég hinsvegar sallaróleg yfir komandi stefnumóti, enginn hnútur í maganum.
- Í gamla daga hefði ég tekið mér langan tíma í að taka mig til, málað mig, naglalakkað og vera viss um að ég væri flott klædd. Í morgun hinsvegar hafði ég mig eiginlega til í flýti. Ég hentist í sturtu, fór í föt sem ég vissi að fara mér vel en eru ekkert rosa rosa fín, setti á mig maskara, smá gums í hárið á mér, ilmvatn og út um dyrnar.
- Í gamla daga hefði ég verið með hausinn fullan af stefnumótinu, nánast stöðugt frá því að það var fundin tímasetning á það. Í morgun var ég að hugsa um allt aðra hluti en stefnumótið.
- Í gamla daga hefði ég verið logandi hrædd við að honum litist svo ekkert á mig. Í morgun fann ég ekki fyrir neinu svoleiðis. Ég fór út í daginn, ánægð og sátt með sjálfa mig.

Það er rosalega skemmtilegt að uppgvöta svona lagað; að óöryggið og kvíðinn fyrir stefnumótum virðist vera gufaður upp. Það hinsvegar tók mörg ár að gerast og helling af sjálfsvinnu. Í staðinn hef ég sjálfsöryggi og vissu um að þó svo stefnumótið fari fjandans til þá heldur lífið samt áfram og ég er algjörlega sátt við það.

Ummæli

Vinsælar færslur