Kenndir

Ég er heppin. 
Ég er heppin að því leiti að ég er opin og ákaflega forvitin manneskja. Ég er ein af þeim sem spyr ótrúlegustu spurninga bara því að mig langar að skilja betur og vita meira. Ég reyni að taka öllu og öllum eins og þeir eru og dæma ekki. 
Ég er heppin að því leiti að ég hef aldrei verið að burðast með BDSM kenndir mínar. 
Jú, auðvitað verður maður svekktur og sár ef að leikfélagasambönd ganga ekki upp. Maður verður langþreyttur og pirraður þegar það gengur illa að finna leikfélaga sem hentar manni. Stundum svo mikið að ég hef verið komin að því að leggja dótatöskuna á hilluna og einbeita mér þeim mun meira að hestamennskunni. Tjah, eða taka upp nýtt áhugamál eins og hekl. 
Ég hef samt alltaf vitað að ég fíla BDSM, ég nýt þess að iðka það og það er órjúfanlegur partur af sjálfri mér. Ég hef aldrei reynt að afneita því eða bæla þessar kenndir niður. Reyndar er þetta eitthvað sem ég ræði ekki við vanillufólkið í vanillunærsamfélaginu. Fordómar og neikvæð umræða valda því að ég er ekki tilbúin að stíga það skref. Þannig að á vissan hátt er ég inni í skápnum ennþá. Í rétta félagsskapnum er ég hinsvegar eins og opin bók og leik á alls oddi.

Ég er heppin.

Ég er heppin því á sama tíma og líf mitt virðist vera svona einfalt hvað þetta varðar, þá er til fólk sem grefur þessar kenndir sínar undir þykku lagi af sektarkennd og samviskubiti. Lag eftir lag af neikvæðum hugsunum og vondum tilfinningum tengdar BDSM halda þessum kenndum í skefjum. 
Samfélagið segir okkur að konur eiga að vera sjálfstæðar og sterkar, óháðar og ekki láta koma illa fram við sig. Á sama tíma eru til konur sem vilja ekkert frekar en að leggja allt sitt í hendur mannsins síns, konur sem vilja vera leiddar áfram og að allar ákvarðanir séu svo gott sem teknar fyrir þær. Það eru til konur sem vilja láta fara illa með sig og koma illa fram við sig innan ákveðins ramma. Það eru til konur sem vilja vera druslur, notaðar, bundnar, lamdar, látnar þjóna öðrum á allan þann máta sem fólki dettur í hug. 
Það getur verið mjög erfitt og snúið að búa í samfélagi þar sem litið er niður á þessa hegðun og athafnir og langa ekkert frekar en að fá að upplifa nákvæmlega þetta. 
Það sama gildir um karlmenn. Að sama skapi eiga karlmenn að koma fram við konur eins og jafninga. Þeir ekki hvorki að nýðast á þeim eða láta þær vaða yfir sig. Samt eru til karlar sem naga sig í hnúana af því að þá langar nákvæmlega það. 
Aðrir vilja fara yfir mörk kynhlutverkanna og klæða sig upp. Enn aðrir vilja gera eitthvað með sama kyni og svona má endalaust halda áfram að telja.

Ástæðan fyrir því að ég er að skrifa um þetta er af því að ég kynntist manni. Hann er yndislegur, viðræðuhæfur, klár og flottur maður. Hann hefur náð langt á sínu sviði og hefur allt til brunns að bera. 
Nema hvað... Hann er kinky! 
Hann er all svakalega kinky og hefur alla tíð lamið sig niður fyrir það. Hann hefur ekki átt gott og farsælt samband við konu, þrátt fyrir að vera kominn á fertugsaldurinn, því langanir hans þjaka hann. Hann hefur ekki getað rætt þessa hluti af skömm. Hann hefur ekki lagt út í að prófa neitt af ótta. Á sama tíma krauma þessar langanir rétt undir yfirborðinu. Hann er þjakaður af þessum löngunum.
Við áttum gott spjall um þetta og ég prísaði mig sæla yfir því að vera ég. Að ég sé ekki á þessum sama stað og hann og hafi aldrei verið. 
Ég óska engum að líða svona, sérstaklega ekki þar sem það er ekkert saknæmt, slæmt eða ljótt við að vera BDSM hneigður. Sé haft að leiðarljósi að leikurinn sé öruggur, allt sem gert er sé samþykkt og tekin meðvituð og upplýst ákvörðun um hvað skal gera ætti engum að verða meint af. 
Í grunnin snýst þetta bara um samskipti.


Í samfélaginu er ekki einfalt að vera BDSM hneigður. En hafið þetta að leiðarljósi: 
Enginn er verri þó hann sé perri.  

Ummæli

Vinsælar færslur