Þróun mála

Ég hef geymt þessa færslu innra með mér í örugglega tvö ár núna og legið á henni eins og ormur á gulli. Það er ekki fyrr en núna að ég er tilbúin til að láta hana líta vefsins ljós.

Ég, eins og svo fjölmargar aðrar konur, hef megnið af minni ævi glímt við lágt sjálfsmat. Allt frá því ég var barn og unglingur hef ég verið að eltast við þann staðal sem samfélagið hefur sett upp. Konur eiga að vera... [þið megið setja það sem ykkur finnst hérna]. Karlar eiga að vera... [önnur álíka viðeigandi staðhæfing]. Fólk á að vera... [þið megið setja hvaða staðalímynd sem er hér]. Það er betra að vera svona!! Og þar af leiðandi verra að vera ekki svona.
Þetta er ekki eitthvað sem er beinlínist sagt við okkur. Jú, allir eltast við töfratöluna á vigtinni, sem er hin eina sanna. Flest annað er sett fram sem hugmyndir eða vísbendingar.
Auglýsingar gera í því að láta okkur horfa á okkur í spegil og sjá gallana, ekki kostina! Gellan í auglýsingunni er svo með töfralausnina fyrir okkur. -Fáðu fallegt og glansandi hár með ÞESSARI hárvöru. Hárið á mér glansar svo sannarlega ekki eins mikið og hjá konunni í auglýsingunni en ég þarf bara að fara og kaupa ÞESSA hárvöru til að ég fái sama háglans hárið og hún!
Neysluhyggjan gerir í því að planta hjá okkur hugmyndum um hvað sé gott, hvað sé flott og hvað sé æskilegt og hvernig við eigum að vera. Þetta er bara til þess fallið að geta selt okkur eitthvað sem við trúum að kemur okkur einu skrefi nær því að vera nákvæmlega eins og neysluhyggjan segir til um.
Ég get skrifað heila ritgerð og haldið fyrirlestur í einn og hálfan tíma um nákvæmlega þetta. Það er hinsvegar ekki markmiðið með þessari færslu.

Ég er ekki ónæm fyrir þessu frekar en aðrir. 
Ég hef skoðað sjálfa mig í speglinum og ekki séð það sem þykir æskilegt samkvæmt þessum staðli sem fjölmiðlar halda á lofti. Þar af leiðandi hef ég gengið út í lífið með lakari sjálfsmynd en ella og ákaflega takmarkað sjálfsmat. Ofan á það skulum við bæta við þeim strákum sem vilja að allar stelpur passi í sama mótið sem nefninst „heita gellan“. Ég passaði ekki alveg í það mót og fékk viðbrögð eftir því. Það hjálpaði ekki til.
Á tímabili var ég þannig að ég hálfpartinn trúði því ekki að einhver strákur myndi vilja mig. 
Ég var ekki ein af vinsælu og flottu stelpunum í skólanum. Þegar ég svo eignaðist kærasta númer tvö var það meira af því að hann vildi mig frekar en að ég væri eitthvað rosalega skotin í honum. 
Það samband var alls ekki slæmt og entist í rúm tvö ár (að mig minnir). Við hættum saman fullkomlega sátt og með enga eftirsjá.

Eftir það lá leið mín bara upp á við. Samt fannst mér það alltaf hálf ótrúlegt að einhver myndi kjósa mig fram yfir einhverja aðra konu. Þrátt fyrir að ég vissi vel af öllum mínum kostum og að ég hafði margt fram að færa þá fannst mér ég alltaf einhvernveginn vera annarsflokks. Ég viðraði þetta nánast aldrei þó svo að tilfinningin hafi vissulega verið til staðar.

Undanfarin sjö ár hef ég unnið gífurlega mikið í sjálfri mér og hef lyft grettistaki á því sviði. 
Í dag er ég allt önnur manneskja en ég var fyrir 10 árum síðan. Ég hef sannarlega uppskorið eins og ég hef sáð. Ég er léttari á sál og líkama, ég hef miklu meira sjálfstraust, ég passa upp á líta vel út (að mínu mati, ekki endilega annarra) svo að mér líði vel, ég reyni eftir fremsta megni að bera mig ekki saman við aðra, ég reyni markvisst að koma vel fram við alla og gefa af mér eins og ég get. 
Ég geri mitt besta en ég leyfi mér líka að vera mannleg. Ég er óendanlega þakklát fyrir fólkið í kringum mig og það sem ég hef áorkað og ég tek því ekki sem gefnu.

Á einhverju munchinu fyrir margt löngu síðan þá uppgvötaði ég líka svolítið...
Á munchinu voru komnir saman perralingar úr öllum áttum, eins og jafnan er á munchum. Konur og karlar af öllum stærðum og gerðum, stemmingin var góð og það var spjallað á öllum borðum. Þar á meðal var einn ákaflega myndarlegur maður, alveg svo að um er talað!
Ég og hann sátum og spjölluðum um eitthvað perralegt og allt í einu þá gerði ég þessa miklu uppgvötun. Ég átti séns í hann!
Hann hafði oft sagt eitthvað við mig sem var tvírætt eða gefið eitt og annað í skyn en ég hafði fram að þessu ekki tekið mark á því. Þarna hinsvegar fannst mér það liggja ljóst fyrir. Ég átti séns í hann! Ég þurfti bara að segja til!

Þá fór ég líka að velta öðrum einstaklingum fyrir mér. Hinum og þessum perranum og öðrum sem á vegi mínum höfðu orðið. Ég átti mögulega séns í þá líka. 
Ég hafði hinsvegar verið svo föst með þá hugmynd að allir vildu þær konur sem pössuðu í mót samfélagsins að ég hafði aldrei gefið sjálfri mér séns. Ég ákvað það fyrir þessa menn að þeir hefðu ekki áhuga á mér og gaf þeim ekki möguleika á því að eiga möguleika í mig. Burt séð frá því hvort þeir höfðu áhuga eða ekki.

Þegar þarna var komið var ég líka farin að njóta þess að vera bara ég. Ég var komin á þetta munch til að hitta skemmtilegt fólk og tala við það. Ekki endilega til að sýna mig, heldur til að sjá aðra. Ég var sátt í eigin skinni og hafði ýmislegt til málanna að leggja. Ég var hætt að bera mig saman við kvikmyndastjörnur, undirfatamódel og þær píur sem prýddu blaðsíður allskonar tímarita. Ég var hætt að reyna að móta mig í það mót sem samfélagið vill að við séum í, heldur var ég að móta mig í það mót sem ég vildi vera í. Það mót hentaði mér mun betur og var greinilega ekki verra en svo að öðrum líkaði það líka.

Þegar ég fór svo að skoða þetta enn nánar og horfa á þetta út frá sjálfri mér þá komst að ég svolitlu áhugaverðu sem ég hafði einhverra hluta vegna ekki leitt hugann að. 
Það fólk sem ég laðast að er ekki endilega það fólk sem passar í mót samfélagsins um hvernig maður á að vera. Fólkið sem ég laðast að er það fólk sem er sjálfsöruggt og sátt í eigin skinni. Skinnið getur svo komið í öllum stærðum og gerðum. Það sem allt þetta fólk á sameiginlegt er þetta fas og þessi ljómi sem skín af einstaklingum sem eru ekki að reyna að vera eitthvað annað en þeir eru.

Ef að það heillar mig í fari annarra, afhverju ætti ekki nákvæmlega það sama að heilla aðra í mínu fari?


Ummæli

Nafnlaus sagði…
Frábært hjá þér að hafa byggt þig svona upp! Stækkað sjálfstraustið þitt, gott mál :-)

Opinskar sagði…
Nú er bara að hjálpa öðrum stelpum að tileinka sér þína heilbrigðu lífsskoðun. Það er ömurlegt að reyna að kynnast fólki og finna að það er ekki sátt við sjálft sig og reynir jafnvel að fella sig að því sem það heldur að maður vilji og laðist að. Það er ekkert meira aðlaðandi en sjálfstraust. Ég vil kynnast konum sem vita að þær eru jafningjar mínir og vita líka að ef ég get ekki hrifist án þess að fylgja uppskrift, er ég ekki tímans virði. Ég á unglingsdóttur og ég neita að láta það gerast að hún falli í þessa gildru og hef alltaf kennt henni og búið hana undir það að hún þurfi að vera sterk og láta engan stjórna því hver hún er eða vill verða. Takk fyrir þessa færslu. Ég ætla að stela henni og sýna dóttur minni.
Opinskar sagði…
Nú er bara að hjálpa öðrum stelpum að tileinka sér þína heilbrigðu lífsskoðun. Það er ömurlegt að reyna að kynnast fólki og finna að það er ekki sátt við sjálft sig og reynir jafnvel að fella sig að því sem það heldur að maður vilji og laðist að. Það er ekkert meira aðlaðandi en sjálfstraust. Ég vil kynnast konum sem vita að þær eru jafningjar mínir og vita líka að ef ég get ekki hrifist án þess að fylgja uppskrift, er ég ekki tímans virði. Ég á unglingsdóttur og ég neita að láta það gerast að hún falli í þessa gildru og hef alltaf kennt henni og búið hana undir það að hún þurfi að vera sterk og láta engan stjórna því hver hún er eða vill verða. Takk fyrir þessa færslu. Ég ætla að stela henni og sýna dóttur minni.
Opinskar sagði…
Nú er bara að hjálpa öðrum stelpum að tileinka sér þína heilbrigðu lífsskoðun. Það er ömurlegt að reyna að kynnast fólki og finna að það er ekki sátt við sjálft sig og reynir jafnvel að fella sig að því sem það heldur að maður vilji og laðist að. Það er ekkert meira aðlaðandi en sjálfstraust. Ég vil kynnast konum sem vita að þær eru jafningjar mínir og vita líka að ef ég get ekki hrifist án þess að fylgja uppskrift, er ég ekki tímans virði. Ég á unglingsdóttur og ég neita að láta það gerast að hún falli í þessa gildru og hef alltaf kennt henni og búið hana undir það að hún þurfi að vera sterk og láta engan stjórna því hver hún er eða vill verða. Takk fyrir þessa færslu. Ég ætla að stela henni og sýna dóttur minni.
Nafnlaus sagði…
Frábær pistill. Tinni.

Vinsælar færslur