Í einhverri hvatvísi og stundarbrjálæði um daginn var ég allt í einu komin í BDSM leik þar sem ég var undirgefni aðilinn. Ég naut mín alveg í botn og skemmti mér konunglega.
Á einum tímapunkti óskaði ég eftir klemmuleik. Leikfélaginn var ekki seinn á sér að teygja sig í klemmupokann minn og fór að raða á mig klemmum hér og þar.
Við vorum að leika með dótið mitt og ég þekki klemmurnar mínar vel. Þær eru í dumbrauðum lit, flöskugrænum, dökkbláum og ekki fallegum gulum. Þær standa hinsvegar alveg fyrir sínu og sóma sér mjög vel þegar þær eru klemmdar á fólk.

Eftir að nokkrar klemmur voru komnar á mig segir leikfélaginn: Ég tek í klemmu, og þú átt að segja mér hvernig hún er á litinn. Ég brosti, enda þóttist ég kunna þennan leik vel. Sá undirgefni er með blindfold og getur ekki séð litinn á klemmunni það eru þá 25% líkur á því að hann segir réttan lit en 75% líkur á því að hann segi rangan lit. Svo er engin leið fyrir þann undirgefna að sannreyna hvort það sem hann sagði var í raun réttur litur, því hann sér ekki neitt. Drottnandi aðilinn getur þess vegna haldið því fram að allt sem sá undirgefni segi sé vitlaust.
Ef að þú segir rangan lit þá mun ég taka klemmuna af þér á harkalegan eða vondan hátt... Ég þóttist alveg vita hvað kom næst og hugsaði með mér að ég gæti eflaust þulið næstu klausu með honum: "en ef þú segir rétt mun ég taka hana varlega af þér". Það var svo ekki alveg það sem hann sagði...  ...en ef þú segir réttan lit mun ég hella yfir þig bensíni og kveikja í!
Ég bjóst enganveginn við þessu og þetta kom mér svo skemmtilega á óvart að ég skellihló við að heyra þetta.
Því næst greip hann um eina klemmuna og spurði hvernig hún var á litinn. Svarið stóð ekki á sér og ég sagði hálf hlæjandi, FJÓLUBLÁ! 

Ummæli

Vinsælar færslur