Jafnvægislist

Það hefur svosem ekki verið neitt leyndarmál að ég hef verið á höttunum eftir leikfélaga undanfarið. Ég hef verið að spjalla við fólk allsstaðar að úr heiminum um daginn, veginn og kinkið. Aðallega kinkið.
Það getur verið gaman en það getur líka verið erfitt, maus og vesen. Svo hef ég verið að komast að því hversu mikil jafnvægislist þetta er.
Samskipti, væntingar og langanir verða að vera í samræmi til að dæmið komist á næsta stig. Og á næsta stigi byrjar þessi jafnvægislist alveg upp á nýtt, kröfur, tímarammi og athafnir verða að vera samræmanlegar til að dæmið virki, og það þarf að viðhalda neistanum, spennuninni og lönguninni til að halda áfram.

Passlega mikil samskipti eru lykillinn! Maður vill hvorki of né van. Og ekki nóg með það þá þurfa þau að vera á réttu nótunum.

Tökum dæmi: Ég spjallaði heilmikið við mann sem býr erlendis. Við náðum vel saman. Hann kom til landsins, við hittumst, áttum góðan tíma og svo hvarf hann af landi brott. Eftir hittinginn heyrði ég lítið í honum þangað til hann var væntanlegur aftur til landsins. Þá var hægt að vinda sér beint að efninu og biðja um annan hitting.
Já, nei. Þannig virka ég ekki! Þetta samskiptamynstur hefur það í för með sér að ég fæ það á tilfinninguna að ég þyki fín til að stunda kynlíf með en hef ekki nógu mikið til brunns að bera að það taki því að halda sambandi.
-Ég held að ég tali fyrir munn flestra kvenna þegar ég segi að ég vil finna að viðkomandi finnist mikið í mig varið sem manneskju. Að ég sé þess virði að fá spjall af og til, eitthvað sem bendir til hlýhugar í minn garð, að ég sé sérstök, einstök, skemmtileg. Ekki bara fyrir dráttinn heldur eftir hann líka, og á milli drátta. Þó svo að við séum bara að tala um bólfélagasamband þá vill maður finna að maður sé eftirsóttur félagsskapur, ekki bara hentugur.
Á hinum endanum er bretinn sem ég hef verið að spjalla við. Ég kynntist honum á netinu og við smullum saman! Það var rosalega gaman til að byrja með. Núna er það allt að því kvöð. Ég fæ skilaboð frá honum nótt sem nýtan dag. Síminn minn pípir á morgnanna þar sem hann býður mér góðan daginn. Fyrir hádegi eru komin tvö skilaboð, og jafnvel þó ég svari ekki þá halda þau áfram að hrúgast inn. Fyrirspurnir um hvernig ég hafi það, hvernig mér gangi, hvernig dagurinn sé í bland við allskonar tilkynningar frá honum. Ég er að drukkna í þessum gaur! Á sama tíma er þetta fínasti náungi og það er virkilega gaman að spjalla við hann þegar sá gállinn er á honum.
Nei, nei, nei, nei, nei!! Jújú, þarna er allt hrósið, athyglin og allt það sem vantaði í hinu dæminu. En einum of! Spennandi gaurinn breytist  í örvæntingafulla gaurinn. Gaurinn sem maður fær ekki frið fyrir. Gaurinn sem gleðst endalaust yfir einu skeyti frá manni. Gaurinn sem reynir einum of. Maður fær ekki tíma til að sakna hans, því hann er alltaf til staðar.
-Hérna get ég ekki talað fyrir hönd annarra kvenna, en ég vil að eltingaleikurinn gangi í báðar áttir, Ég vil þreyfa fyrir mér, gefa vísbendingar um minn áhuga og leita eftir áhuganum hjá viðkomandi. Í gegnum samskiptin í hvaða formi sem þau taka. Hvort sem um ræðir skilaboð, sms, símtöl, augnagotur, snertingar eða hvað annað.

Þetta er jafnvægislist. Maður vill hvorki of né van. Maður vill bara það sem virkar fyrir mann. Maður vill að neistinn sé fyrir hendi, samskiptin virki, praktísku atriðin samræmist, spennan viðhaldist, og að ævintýrið haldi áfram.


Ummæli

Vinsælar færslur