Litli hnúðurinn

Ég veit ekki alveg hvernig ég á að byrja þessa færslu. Mig langaði að segja ykkur frá litla hnúðnum sem ég fann neðan við annan innri barminn. Hann var oggu pínu ponsu lítill í fyrstu, örlítil hrukka. Ég fann hann þegar ég var að fitla við mig. Á nokkrum dögum fann ég hvernig hann stækkaði örlítið.
Það kom nokkurra daga pása hjá mér í sjálfsfitli og þegar ég tók til við þá iðju aftur hafði hnúðurinn stækkað helling, að mér fannst. Ég fékk svolítið sjokk! Svolítið mikið sjokk! Það varð auðvitað til þess að ég fór að lesa mér til.
Litli hnúðurinn fór frá því að vera eðlileg öldrun, upp í kynfæravörtu, yfir í krabbamein ansi hratt. Eiginlega bara á einni  lesningu. Ofaná það þá komst ég ekki til læknis einn tveir og NÚNA!
Á nokkrum dögum fannst mér fallega píkan mín vera orðin hálf afmynduð og sjúk. Mér fannst hún ógirnileg og á engan hátt frambærileg. Ég vildi fela hana öllu og öllum. Ég vildi að enginn myndi snerta hana, því viðkomandi hlyti að finna hve afmynduð hún var! Þessi hryllilegi hnúður olli mér miklu hugarangri.
Á endanum náði ég loksins tali af lækni. Hann sannfærði mig um að ég væri  hvorki með kynfæravörtur eða krabbamein, heldur væri þetta einfaldlega stíflaður svitakirtill, eitthvað sem gerist oft og er sárasaklaust....

Ég er ekki að fara að deyja úr krabbameini! Ég hinsvegar vona að þessi hnúður yfirgefi svæðið sem fyrst, þó svo að hann sé ekki neitt hættulegt, þá á ég samt erfitt með að sætta mig við hann.

Ummæli

Vinsælar færslur