Draumfarir

Eins og fram kom síðast þá hef ég verið haldin mikilli ógleði í sumar. Svo mikilli að ég var rúmliggjandi og ælandi meira og minna þangað til ég komst á lyf við ógleðinni.
Á þessu tímabili var kynlíf eitthvað fjarlægt og óraunverulegt. Mér leið það illa að hugmyndin um að vera kysst ástríðufullt og snert á kynferðislegan máta var fjarstæðukennd. Ég hefði ekki viljað það þó svo ég fengi vel greitt fyrir.
Á sama tíma fór ég að sofa á hverju kvöldi með þá ósk í brjósti að mig myndi dreyma eitthvað kinky eða kynferiðislegt, þar sem ástríðan væri við völdin og lostinn ríkjandi. Sumar nætur var ég heppin og þá morgna remdist ég við að sofa aðeins lengur til að halda í drauminn. Aðrar nætur var ég ekki jafn heppin og morguninn kom eftir draumlausa nótt.
Það væri full djúpt í árinni tekið að segja að þessir draumar hafi komið mér í gegnum daginn. En þeir hjálpuðu svo sannarlega til. Þær nætur var ég ekki þjökuð af ógleði og tókst í smá stund að komast burt frá vanlíðaninni. Þær nætur upplifði ég að ég væri girnileg, eftirsótt, sexý, flott, að ég hefði eitthvað fram að færa. Sem var andstæðan við það hvernig mér leið á daginn. Þá morgna vaknaði ég líka rök á milli fótanna. Það var einhvernveginn staðfesting á draumnum. Þessir draumar gáfu mér líka eitthvað til að hlakka til og njóta, eitthvað til að rifja upp og leyfa huganum að dvelja við.

Ummæli

Vinsælar færslur