Efnafræði

Fyrirbærið sem mig langar að skrifa um útlegst upp á enskuna sem chemistry. Google translate sagði mér að það væri efnafræði á íslensku. Mér finnst það ákaflega léleg þýðing og finnst betra að hugsa þetta sem aðdráttarafl.

Ég fékk vinnu um daginn. Ég er búin að vinna nokkrar vaktir og líkar bara vel. Yfirmaður minn er maður sem er nokkrum árum eldri en ég og ákaflega fær í sínu fagi. Við náðum strax vel saman og virðumst hafa svipaðar hugmyndir og áherslur í starfi. Það skemmir ekki fyrir að hann er frekar myndarlegur, hávaxinn, sterklegur og með ákaflega falleg augu.
Í gærkvöldi kom hann á vaktina sem ég var að vinna. Hann tók stöðuna og ræddi við starfsfólkið um starfið, árétti nokkur atriði sem höfðu ef til vill farið á milli hluta og talaði um framtíðarhugmyndir. Allt í einu fékk ég það á tilfinninguna að ég væri að fá sérstaka athygli frá honum. Ítrekað spurði hann mig hvernig mér litist á starfið og hvernig mér líkaði aðstaðan eða þær hugmyndir sem hann bar á borð. Hann reyndi mikið að draga mig inn í samtölin sem hann átti og þegar hann horfði á mig var það aðeins of fast eða örlítið of lengi.
Þeirri hugmynd skaut upp í kollinn á mér að hann væri virkilega að reyna við mig, eins óviðeigandi og það var svona í vinnunni. Ég skal samt ekki neita því að ég fann að ég laðaðist að honum á móti. Ég var meðvituð um nærveru hans allan tímann. Einu sinni eða tvisvar skaut þeirri hugsun upp að það væri yndislegt að kúra með honum og að það væri örugglega unaðslegt að finna hann snerta mig.  Ég ákvað samt að best væri að ég væri ekki að kynda undir neitt og ég hélt mig í hæfilegri fjarlægð. Ég passaði að vera ekki í sama rými og hann og detta ekki niður í þá freistandi gryfju að endurgjalda athyglina eða fara beinlínis að daðra við hann. Mér finnst ég alltaf vera rosalega berskjölduð ef að ég laðast að einhverjum og daðra opinskátt við viðkomandi. Ég er þá alveg viss um að annað fólk geti lesið mig eins og opna bók og í þessu tilfelli vildi ég það alls ekki.

Ég velti því fyrir mér hvort að það sé eitthvað til í þessu? Getur verið að manneskjur séu þannig útbúnar að þær finni jafnan fyrir gagnkvæmu aðdráttarafli? Það er talað um að það sé efnafræði (e. chemistry) á milli fólks, það á þá við þegar aðlöðunin er sterk og gagnkvæm þannig að hún fer ekki á milli mála. Getur verið að ef önnur hefur áhuga og sýnir það á einhvern óyrtan máta, að það kveiki einhver viðbrögð hjá hinni? Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort að það sé eitthvað að marka svona aðdráttarafl eða aðlöðun, eða hvort þetta sé eitthvað tilfallandi, eða bara í hausnum á manni? Kannski er yfirmaðurinn bara svona almennilegur gaur og hausinn minn er í boðefnakasti sem segir mér að eitthvað meira liggi á bakvið.

Ummæli

Vinsælar færslur