Ein færsla á ári

Ég hef verið í mikilli lægð undanfarið. Það kemur lesendum mínum kannski ekkert á óvart þar sem árið 2017 birtist bara ein færsla inn á þetta blogg.

Ástæðan er fyrst og síðast sú að ég hef verið upptekin við að fjölga mannkyninu. Ég var búin að sjá þetta tímabil baðað rósrauðum bjarma. Nýtt líf að vaxa og dafna inni í mér, við foreldrarnir með hjörtu í augunum og ástfangin upp fyrir haus, spennt fyrir því að kynnast þessari nýju manneskju og læra inn á nýtt hlutverk. Ég sá fyrir mér að ég myndi leyfa ykkur lesendur góðir að fylgjast með. Ég sá fyrir mér færslur um það hvernig breytingar á líkamanum hefðu áhrif á kynlífið, og lífið sjálft, og hvernig við myndum vinna okkur í kringum það. Ég myndi birta færslur um stækkandi brjóst, stækkandi maga, rakstur á með kúluna út í loftið, hvaða stellingar virka og hvaða stellingar virka ekki, og hvernig hægt sé að stunda BDSM með lítið kríli á leiðinni.
Ég ætlaði ekki að gefa neinn afslátt af kynlífinu eða BDSMinu, ef út í það væri farið. Ég ætlaði heldur ekki að láta þungunina hafa mikil áhrif á daglegt líf og ætlaði svo sannarlega að njóta þess að vera ólétt og upplifa þetta kraftaverk sem lífið er.
Ég ætlaði að vera ein af þessum 5% sem finnur ekkert fyrir morgunógleði, eða grindargliðnun eða öðrum meðgöngukvillum.

Ég lærði það snemma á meðgöngunni að ég var ekki ein af þeim. Ég var á hinum endanum á rófinu. Ég var með "morgun"ógleði allan sólahringinn, alla meðgönguna. Ég greindist fljótlega með meðgöngusykursýki og þegar á leið bættist við grindargliðnun. Þannig að meira og minna alla meðgönguna leið mér ekki vel og kynlöngunin var eftir því. Ég var þung á mér, átti erfitt með að hreyfa mig og nánast stöðugt óglatt. Kynlíf og/eða BDSM var mjög fjarri mér. Þetta tímabil er hálfpartinn í þoku hjá mér og mig minnir að ég hafi stundað alvöru kynlíf tvisvar á meðgöngunni. Ég var að vísu duglegri að stunda sjálfsfróun en það var samt ekkert til að hrópa húrra yfir.

Eftir að ég átti var ég lengi að jafna mig og firstu vikurnar voru upp og ofan. Barnið tók allan tíma og orku sem ég átti til þannig að kynlöngunin var áfram í algjöru lágmarki. Fyrir utan að ég varð hálf feimin við sjálfa mig. Ég veit ekki hvort aðrar konur lendi í þessu líka, en ég var einhvernvegin viss um það að píkan á mér væri ekki söm við sig eftir átökin sem fylgdu því að koma barni í heiminn. Miðað við aðrar konur rifnaði ég tiltölulega lítið skilst mér, en það þurfti að sauma nokkur spor og lengi á eftir var ég þrútin og aum. Kynlíf var ekki ofarlega á listanum hjá mér. Það hjálpaði svo ekki til að loksins þegar ég var tilbúin að prófa þá fylgdu óþægindi samförum. Það varð bara til þess að sú litla kynlöngun sem var til staðar hvarf nánast alveg.

Það þurfti samt bara einhver tvö skipti til og ég var aftur orðin ólétt. Þannig að ég er aftur kominn í pakkann að vera iðullega óglatt, vera þung á mér og eiga erfitt með að hreyfa mig. Ofaná það bætist að lítið kríli heimtar stöðugt athygli mömmu sinnar svo það er ekki í boði að taka því rólega og leggja sig eftir þörfum. Aftur er kynlífið eftir ástandinu á mér, svo það fer mjög lítið fyrir því.

Ég er því búin að vera í kynlífs/BDSM dvala undanfarið og verð það sjálfsagt eitthvað áfram. Ólíkt fyrri meðgöngu þá er ég talsvert hressari á þessari meðgöngu. Ég hef aðeins verið að laumast inn á fetlife og fylgist með á hliðarlínunni. Þannig að áhuginn er ekki alveg horfinn þó að kynlöngunin sé ekki upp á marga fiska, og hver veit nema færslurnar verði fleiri árið 2018 en árið 2017. Ég er að minnsta kosti þegar búin að skrifa jafn margar færslur þetta árið og í fyrra.

Svona í lokin vil ég þakka ykkur fyrir að kíkja ennþá hingað inn. Það ýtir vissulega undir það að ég bloggi þegar ég veit að einhver lesi þetta.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Æðislegt að heyra af nýjum einstaklingi, og svo er annar á leiðinni. Þetta er bara æðislegt! Nýr kafli að hefjast hjá ykkur :-)

Til hamingju með krakkann (og þennan sem er á leiðinni), og gangi allt vel!

Vona að kynlífið detti ekki of mikið niður ... er ekki bara best að segja að þetta komi allt saman aftur.
stelpustrakur sagði…
Sæl og blessuð og innilega til hamingju með barnið, já og líka með að vera orðin ólétt aftur. Vona bara að meðgangan gangi betur núna.
Ég var eitthvað óöruggur að forvitnast hvernig gekk með fæðinguna, en nú sé ég að allt gekk eðlilega. Var það ekki annars? Bestu kveðjur til pabbans.
Loki

Vinsælar færslur