Ég er búin að hugsa um og geyma þessi skrif í langan tíma. Í eitt og hálft ár, ef satt best skal segja.

Ég eignaðist börnin mín tvö með stuttu millibili. Þegar seinni óléttan varð ljós pakkaði ég niður öllu BDSM dóti og setti í geymslu, vitandi vits að ég myndi ekki nota það á næstu mánuðum.

En eins og alltaf þá helltist yfir mig löngunin í BDSM og þá útrás sem ég fæ þar. Það var að vísu talsvert eftir að yngra barnið fæddist, en engu að síður kviknaði aftur þessi þörf. Ég skellti mér á munch og kynntist manni þar. Eftir talsvert spjall þá tók ég skrefið og við tókum einn leik. Þessi leikur var frekar hefðbundinn, ef hægt er að kalla BDSM hefðbundið á einhvern hátt. Ég var sett í hálsól, bundin, hýdd á alla kanta, og fékk gott kúr og spjall á eftir.

Þessi leikfélagi hafði unun af því að slá mig á brjóstin. Þannig að eftir leikinn varð ég eðlilega marin á brjóstunum. Ég hef aldrei orðið jafn marin á brjóstunum og sjaldan orðið jafn marin eftir leik almennt. Á degi þrjú var enginn munur á brjóstunum á mér, þau voru æpandi fjólublá. Á degi sjö var marið aðeins farið að minnka. Á degi 14 var ég ennþá það marin að ég treysti mér ekki í sund. Sæluvíman eftir leikinn var algjörlega horfin og í hennar stað var kominn bunki af sjálfsvorkun. Það hjálpaði síður en svo til að G var ósáttur við hvað það sást mikið á mér. Þessi sjálfsvorkun risti mjög djúpt. Afhverju var marið svona lengi að fara? Afhverju marðist ég svona mikið í þessum leik? Mig langaði ekkert heitar en að komast í sund. Þar sem ég fer minnst vikulega í sund alla jafna þá var ég farin að sakna þess virkilega mikið. En það að vera helblá á brjóstunum í búningklefanum er bara ekki í boði.

Yfir mig helltist líka skömm sem ég kannaðist ekki við. Skömm yfir útlitinu á brjóstunum á mér, skömm og gremja út í samfélagið sem úthúðar, og mögulega útskúfar fólk sem fær nautn af svona óhefðbundum athöfnum og síðast en ekki síst skömm og biturð yfir því að hafa þessar kenndir yfir höfuð! Afhverju gat ég ekki bara verið venjuleg?! Ef ég væri „venjuleg“ þá hefði ég ekki þessa löngun og þörf fyrir BDSM, ég fengi mína útrás úr „venjulegu“ kynlífi og lífið væri dans á rósum. Ég væri að minnsta kosti ekki í öngum mínum yfir því að vera marin á brjóstunum.

Í fyrsta skipti, svo ég muni til þess, þá grét ég það að hafa þessar kenndir. Ég grét það að hafa þessa þörf, að vilja og fíla það að vera bundin og hýdd, og að fá þar útrás sem ég fæ hvergi annarsstaðar. Ég bókstaflega hágrét yfir því og óskaði þess heitt og innilega að ég væri ekki svona. Ég velti því fyrir mér í alvörunni að pakka niður öllu dótinu mínu og henda því út í hafsauga og hætta alfarið að stunda BDSM. Ég vorkenndi meira að segja börnunum mínum fyrir að eiga svona mömmu.

Ég hafði aldrei fyrr verið að burðast með þessar tilfinningar. Fram að þessum tímapunkti var ég sátt í sjálfri mér. Jú, ég var öðruvísi, ég fílaði öðruvísi hluti en „venjulegt“ fólk. Ég var svo heppin að ég átti maka sem gaf mér frelsi til að leika eins og ég vildi. Ég leit aldrei niður á mig fyrir það. Ég upplifði aldrei þessa skömm, þó svo að ég væri inni í skápnum með þetta gagnvart nærsamfélaginu. Á þessum tímapunkti opnuðust augu mín fyrir því hvað svo margir aðrir hafa þurft að burðast með, og gera eflaust enn. Þrátt fyrir allt var ég samt heppin, á rúmlega 10 ára ferli hafði ég aldrei fyrr lent á þessum stað.

Það tók sinn tíma en ég komst yfir þetta. 


Ummæli

Nafnlaus sagði…
Áhugaverð lesning.. byrja þó að kvitta með eitt stk "hundasúra".

Er það ekki verra í alla staði að hafa kenndir og ekki uppfylla þær. Fela þær fyrir sjálfum sér og öðrum. Meðan þessar kenndir eru ekki á neinn hátt að skaða aðra (nema smá bið í sund) þá held ég að flestir séu nú bara smá abbó.

Kveðja
ComputerSaysNo

Vinsælar færslur