Er það ekki verra í alla staði að hafa kenndir og ekki uppfylla þær. Fela þær fyrir sjálfum sér og öðrum. Meðan þessar kenndir eru ekki á neinn hátt að skaða aðra (nema smá bið í sund) þá held ég að flestir séu nú bara smá abbó. 

 Ég fékk þessa athugasemd við færslu hérna neðar. Þetta er góð athugasemd og eitthvað sem maður svarar ekki í örfáum orðum. Ég held líka að þetta sé efni og vangaveltur sem þurfa heila færslu. Þetta er pottþétt eitthvað sem margt hinsegin fólk hefur þurft að glíma við. 

Eðli okkar sem manneskjur er að vera partur af samfélagi. Við sem dýrategund erum hópdýr og í fyrndinni var það spurning upp á líf eða dauða hvort við tilheyrðum hópnum eða ekki. Það er innbyggt í okkur að vilja vera hluti af hóp og þegar við upplifum að við stöndum fyrir utan hópinn hefur það slæm áhrif á heilsu okkar og líðan. Einmanaleiki, sem framkallast af því að þú færð ekki þau samskipti og stuðning úr umhverfinu sem þú þarfnast, eykur streituhormónin í líkamanum sem gerir það meðal annars að verkum að við erum sífellt á varðbergi gagnvart hættum. Einmanaleiki hefur líka verið tengdur við hærri blóðþrýsting, auknar líkur á hjartasjúkdómum og minni lífslíkur almennt. 
Ef samfélagið sem við erum partur af niðrar eða útskúfar fólk sem hefur ákveðnar kenndir, þá erum við sem höfum þessar kenndir, komin í áhættu á að vera útskúfað úr samfélaginu eða hópnum okkar. Á frumstæðan hátt upplifum við það sem beina ógn við öryggi okkar. 

Þegar maður svo heyrir vinnufélaga og ættingja hneikslast á BDSM þegar það kemur fyrir í dægurmenningunni þá ýtir það undir þessa ógn. Ef ég kem út úr skápnum, þá gæti ég orðið að athlægi eða útskúfuð. 

Ég veit persónulega um dæmi þess að upp komst um BDSM-hneigðan einstakling á vinnustað sínum. Viðkomandi kom ekki sjálfur út úr skápnum heldur benti einhver annar á hann. Þessum einstakling var útskúfað félagslega á vinnustaðnum á einu bretti. Vinnufélagarnir hættu að umgangast hann eða tala við hann, þrátt fyrir að hafa starfað með honum í fleiri ár. Á endanum sagði hann upp vegna vanlíðunar. 

Maður þarf líka ekki að líta langt til að sjá mikla afturför í málum hinsegin fólks. Hinsegin fólk í Póllandi mætir til dæmis margskonar fordómum og misrétti. Því er haldið að almenningi að LGBT (lesbian, gay, bi, trans) sé aðeins hugmyndafræði og það ónáttúruleg og röng hugmyndafræði. Hinsegin fólk í Póllandi hefur orðið fyrir grjótkasti í sínum gleðigöngum. Meira að segja forseti landsins segir opinberlega að það sé skaðlegt fyrir börn að alast upp hjá samkynhneigðum foreldrum og að það ætti að banna samkynhneigðum pörum að ættleiða. Ég efast um að málum BDSM-fólks sé eitthvað betur háttað í Póllandi. 

Það er að mínu mati ekkert endilega verra í alla staði að hafa kenndir og fá ekki að uppfylla þær. 
Ekki misskilja mig, það getur verið ömurlegt að hafa langanir og þrár og fá þeim ekki fullnægt, og það tekur sinn toll. Það er ekki góð tilfinning að vera inni í skápnum þegar málefni sem standa manni nærri eru höfð að háði og spotti, og þora ekki að standa upp fyrir þeim af ótta við að verða sjálf að háði og spotti. 
Hinsvegar snýst þetta um valið og áhættuna við að koma út úr skápnum og vera tilbúinn að taka afleiðingunum. Kannski hættir nær öll fjölskyldan mín að tala við mig. Kannski verður hringt beint í barnaverndarnefnd þar sem kinky kona getur varla verið hæf móðir. Kannski fá börnin mín ekki að leika við aðra krakka af því að foreldrar þeirra banna þeim það. Kannski verður mér sagt upp í vinnunni. Kannski mun barnsfaðir minn hóta því að nota BDSM-kenndir mínar gegn mér í forræðisdeilum. Kannski verð ég grýtt í gleðigöngu þar sem markmiðið er að fagna fjölbreytileikanum (það er hæpið en dæmin eru til). Kannski fæ ég að heyra það á förnum vegi frá ókunnugu fólki. Kannski verða eigur mínar skemmdar. Listinn er mjög langur af alvöru hlutum sem gætu gerst ef fólk kemur út úr skápnum. 

Ég get með fullvissu sagt að mínar kenndir skaða ekki aðra. Hinsvegar gerir samfélagið okkar það að verkum að mínar kenndir geta skaðað mig og börnin mín. Bara ekki á þann hátt sem fólk ímyndar sér.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Góður punktur.

Almennt þá vona ég að við séum betur sett en Pólland í þessum málum en ég skil vel hvað þú meinar í þínum rökum. Það að vera meðtekin(n) í hóp og tilheyra skiptir öllu máli fyrir hjarðdýr sem okkur.

Ég veit að mér finnst BDSM áhugavert og vekur mína forvitni en játa að ég er ekki að kasta því fram í umræðu á kaffistofunni eða við maka.

Kveðja
ComputerSaysNo
Prinsessan sagði…
Við erum vissulega betur sett en Pólland að mjög mörgu leiti. Umræðan er orðin opnari, að fíla BDSM er ekki jafn mikið tabú og það var og með hverjum og einum sem er sýnilegur í þjóðfélaginu verður þetta auðveldara fyrir alla hina. Ég þekki marga sem eru komnir alveg út úr skápnum og ég dáist að þeim. Ég er bara ekki alveg komin þangað.

Vinsælar færslur