Trans í Póllandi

Í sumar kynntist ég trans strák frá Póllandi. Hann er alveg dásamlegur og hann er ástæðan fyrir því að ég er meðvituð um aðstæður hinsegin fólks í Póllandi. 
Hann dreif sig heim til Póllands rétt fyrir kosningarnar til að taka þátt í kosningabaráttunni. Því miður fóru kosningarnar ekki eins og hann hefði kosið og gaurinn sem er á móti öllu hinseginn vann kosningarnar með 51% atkvæða. 

Matti var mjög opinn með sjálfan sig og sagði mér frá mörgu sem hann þurfti að takast á við í sínu ferli, til að fá að vera sá sem hann er. Til að mynda þurfti hann að sýna fram á það að hann hafi aldrei leikið sér að stelpuleikföngum í æsku. 
Það sem stuðaði mig samt mest er að eftir að hann kom út úr skápnum gagnvart foreldrum sínum þá fóru þau með hann til andasæringamanns. Þau eru kaþólsk og trúðu því sannarlega að það þyrfti að særa þessa illu anda og djöfla út úr dóttur þeirra. Þá myndi hún hætta að hafa þær hugmyndir að sér liði betur ef hún fengi að lifa lífinu sem karlmaður. 
Matti gerði það fyrir foreldra sína að gangast undir þetta. Hann sagði mér að hann hafi verið spenntur fyrir því sem myndi gerast, að ganga upp veggi og svoleiðis, en svo var víst ekki raunin. Eftir að særingunni lauk (sem var víst bæði long og leiðinleg) var hann samur við sig og foreldrarnir urðu að sætta sig við að það voru ekki illir andar sem hrjáðu dóttir þeirra. 

Þegar hann sagði mér þetta varð ég gjörsamlega orðlaus. 
Þetta gerðist fyrir einum sex árum síðan, eða árið 2014! 
Ég er agndofa yfir því að árið 2014 hafi fólk haldið í alvörunni að illir andar hrjái þá sem eru ekki eins og allir hinir. 

Ég trúi því ekki að foreldrar hans séu slæmt fólk og ég trúi því sannarlega að þau hafi haldið að þau væri að gera rétt, með hag dóttur sinnar efst í huga. Mér finnst þetta samt lýsa því vel að það er himinn og haf á milli okkar veruleika og margra annarra í heiminum. 
Við, hérna á Íslandi, erum í svo mikilli foréttindastöðu gagnvart svo mörgu að það er auðvelt að gleyma því og taka því sem sjálfsögðum hlut. 
Á endanum tókst foreldrum hans að sætta sig við þetta og kalla hann eftir sínu nafni í dag. Á tímabili var hann samt "barn númer þrjú", eða "þriðja barnið". Þá voru þau tilbúin til að sleppa tökunum á því að hann væri stelpa, en voru heldur ekki alveg búin að sætta sig við hann sem strák. Svona er vegferð manna mismunandi. 

Ummæli

Vinsælar færslur