Í gær fór ég í raddprufu fyrir kór. Mig hefur lengi langað að fara aftur í kór og sór þess dýran eið í vor að ég myndi láta það eftir mér.

Við vorum nokkur á leið í raddprufur í þetta skiptið. Hvert á fætur öðrum fór inn til kórstjórans með fiðrildi í maganum til að þenja raddböndin.
Eftir að hafa verið skipuð í viðeigandi raddir (ég var sett í 2. alt) þá hófst hefðbundin kóræfing. Þar sem að covid ræður ríkjum æfði bara helmingurinn af kórnum í einu. Jafnframt var að jafnaði 2ja metra bil á milli sæta þannig að þetta var ekki kóræfing eins og ég á að venjast.

Kórstjóranum tókst að hrífa mig með sér strax í raddprufunni. Á æfingunni sjálfri komst ég að því að það er geggjað að vinna með honum.
Hann er ástríðufullur, metnaðargjarn, hæfileikaríkur, kröfuharður, skemmtilegur og lifandi í því sem hann gerir. Hann er líka mögulega samkynhneigður. Sem stjórnandi náði hann öllum strax á sitt band með sinni eðlislægu gleði yfir því sem hann var að gera. Ég var þar engin undantekning.
Þegar leið á æfinguna fann ég að honum tókst líka að spila á þennan undirgefna streng sem býr í mér. Það er strengurinn sem þráir að fá að gefa sig að einhverjum, gefa valdið til einhvers, fá að fylgja, hlýða, og þóknast, og hljóta athygli og velþóknun fyrir.
Hann laðaði fram undirgefnu hliðina í mér í vanillu-heiminum, svo auðveldlega að ég eiginlega varð gáttuð á því.
Á einhvern undarlegan hátt veittu þessar aðstæður mér jafnframt örlitla útrás fyrir þá þörf að vera undirgefin. Það var svo rosalega gott að finna að einhver naut þess að stýra manni og stjórna. 
Hann var ekki að veigra sér yfir því að krefja okkur um eitthvað sem var sannarlega áskorun, eitthvað sem var út fyrir hinn hefðbundna kassa, og bara það að syngja fyrir framan einhvern er ákveðin berskjöldun. 
Hann notaði líka augnsamband grimmt þegar hann var að vinna með okkur, vitandi vits að allra augu voru á honum. Það að horfa í augun á honum og fylgja eftir því sem hann ætlaðist til, jafnvel án þess að hann segði það berum orðum, það var sannarlega magnað! Það er tilfinning sem er mögulega smá ávanabindandi. 

Það kemur kannski ekki á óvart að ég er strax farin að hlakka til næstu kóræfingar!

Ummæli

Vinsælar færslur