Rúmum mánuði seinna

Það er núna kominn vel rúmur mánuður síðan við G hættum formlega saman. Við erum ennþá undir sama þaki og verðum það eitthvað áfram. Það er kominn einhver taktur hjá okkur sem virkar þokkalega, svona miðað við aðstæður.

Ég verð samt að viðurkenna að ég upplifi allskonar tilfinningar tengdar þessum sambandsslitum. Ég er alveg sátt við þessa niðurstöðu og sé á engan hátt eftir því. Það er allt hitt sem veltist fyrir mér. Skömmin yfir því að vera undir í tölfræðinni, en mörg pör komast ekki í gegnum fyrstu árin eftir barnsburð. Ég ætlaði svo sannarlega ekki að vera í þeim pakka!
Svo er það að standa ekki undir væntingum samfélagsins, ekki síður en manns sjálfs. Vinkona mín sagði einu sinni við mig “ef þið meikið það ekki, hvaða séns eigum við hin?”. Núna þarf ég að segja henna að við meikuðum það bara ekki. Á hún þá engan séns? Eða þið öll hin? Úff…. Þvílík pressa!

Ég hef heldur ekki sagt neinum í vinnunni frá þessu. Mig langar bara ekki að taka þessa umræðu. Fyrir utan að ég veit ekki hvernig maður kemur svona löguðu að, sérstaklega eftir svona langan tíma. “Já, og við G erum hætt saman, slitum sambandinu fyrir x vikum síðan!”.

Málið er líka að ég hef ekki tekið þessu illa. Ég er ekkert búin að vera í rusli. Ég finn aftur á móti til léttis og mér finnst ég hafa lifnað við aftur. Ég upplifi mig meira eggjandi núna en ég hef gert í langan tíma. Að sama skapi er ég með meiri kynhvöt en ég hef haft í lengi lengi. En á maður ekki að vera vængbrotinn og særður? 
Kannski á ég eftir að vængbrotna og verða í rusli. Kannski er þetta eitthvað hveitibrauðs tímabil sem gengur yfir, hver veit. Kannski á ég bara eftir að plumma mig ágætlega í gegnum þetta allt saman. 
Ég er líka heppin að eiga góða að sem hafa stutt mig í gegnum þetta ferli frá a-ö. Það er ómetanlegt og ég er endalaust þakklát fyrir það.

Ummæli

Vinsælar færslur