Egglos


Um daginn hitti ég kvensjúkdómalækni. Læknirinn malaði allan tíman, þannig að ég fór frá henni með flúnku nýja lykkju í leginu og fullan haus af fróðleik. Ég elska svona læknisheimsóknir, þar sem maður fær svo miklu meira út úr tímanum en bara það sem til stóð.

Í miðju malinu segir hún að á þessari lykkju muni ég fá egglos eins og venjulega, en að eggið geti ekki fest sig og orðið að fóstri. Á sama tíma þá ætti ég ekki að fara á blæðingar heldur. Ég vissi ekki að ég myndi fá egglos og það gladdi mig mikið.
Jú, kynveran í mér svo sannarlega vöknuð og hún vill sitt! Þar spilar egglos nefnilega inn í, merkilegt nokk. Það gerist eitt og annað í líkömum kvenna í kringum egglosið sem gerir þær eftirsóknarverðari.

Hormónastarfsemi kvenna sveiflast að miklu leiti í þessum takti: Aðdragandi eggloss, egglos, blæðingar – aftur og aftur og aftur, þangað til eggið frjóvgast og úr verður barn. Lengi vel hélt vísindaheimurinn að konur gæfu það ekki sérstaklega til kynna að þær væru á frjóasta tímabili tíðarhringsins, en nýjar rannsóknir hafa leitt annað í ljós.

1. Konur upplifa oft jákvæðar tilfinningar í kringum egglos. Sjálfar segjast þær vera framtakssamari í kringum egglos en á öðrum tíma tíðarhringsins.

2. Konur daðra meira á frjóasta tímibili tíðarhringsins, en aðeins við þá sem þær laðast að.

3. Konur eru rjóðari í vöngum, en sú breyting er reyndar svo lítil að við nemum hana ekki svo glatt.

4. Raddblær kvenna breytist og tónhæðin sem þær tala í verður hærri. Röddin þeirra þykir meira aðlaðandi en ella.

5. Líkamslykt kvenna verður sætari og meira aðlaðandi í kringum egglos.

6. Lyktarskyn kvenna verður líka næmara í kringum egglos.

7. Konur eyða meiri tíma í að snyrta sig en ella.

8. Konur verja meiri tíma í að velja sér klæðnað en á öðrum tímum tíðarhringsins, þær sýna jafnan meira hold og kjósa heldur að klæðast heitum litum, eins og rauðum, bleikum og appelsínugulum.

9. Brjóst kvenna verða oft næmari í kringum egglos.

10. Konur hafa meiri kynlöngun í kringum egglos en á öðrum tíma tíðarhringsins.

Já, ég get alveg hugsað mér að vera framtakssamari, þykja meira aðlaðandi, með næmari brjóst og meiri kynlöngun á vissum tímum mánaðarins, og þurfa samt ekki að fara á blæðingar þess á milli. Í mínum huga eru þetta eintómir kostir.

Ummæli

Vinsælar færslur