Fleiri áminningar

Ég strauk eftir hökunni og ég fann hvað hún var hrjúf. Það var eins og ég væri með útbrot, eða þurrkblett. Það er svosem ekkert óvanalegt þegar það er farið að kólna úti. Eins og fyrri daginn þurfti ég samt ekki að velta fyrir mér upptökunum. Ég hafði fundið það strax um kvöldið hvernig húðin varð ert, rauð og aum undan skegginu hans. Ákafir kossar og yndisleg atlot urðu til þess.
Í vinnunni tóku allir eftir þessu. Margir nefndu þetta við mig. Hvað er eiginlega í gangi með hökuna á þér? Ertu með exem? Varstu búin að taka eftir því hvernig þú ert á hökunni? Þetta er eins og útbrot af einhverju tagi? Alltaf sagðist ég ekki vita hvað orksakaði þetta (sem var nottla haugalygi), og að þetta væri sjálfsagt bara sárasaklaus þurrkblettur sem myndi jafna sig. Annað eins hefur nú gerst.
Ég er viss um að ég hafi farið hjá mér í eitt eða tvö skipti þegar ég var spurð og ef til vill roðnað smá. Ekki af því að mér finnst eitthvað að því að vera með þurrkblett á hökunni. Meira af því að ég vissi svo sannarlega hvernig hann kom til, og það var allt annað en sárasaklaust.

Ummæli

Vinsælar færslur