Mín eigin Pandóru-askja


"Mér finnst stundum erfitt að orða það sem mig langar. Þó það sé ljóslifandi í huganum. En að taka allt og setja þangað er... óhugnarlegt."

Þetta var bæði gamalt spjall og nýtt. 
Við vorum að ræða um það fólk sem leyfir sér ekki að njóta, sem upplifir skömm yfir eigin ánægju og mögulega eigin kynferðislegu viðbrögðum. Ég vissi það jafnvel áður en ég var búin að ýta á enter að þetta fengi ekki að liggja kyrrt. Þá á ég við það að ég gæti átt erfitt með að orða langanir mínar. Enda kom það fljótlega því hann vildi „ná í þetta sem er ljóslifandi í huganum“. Ég fraus við að lesa þetta og það helltist yfir mig óræður ótti. Mér tókst að víkja mér undan þessu og draga spjallið yfir á aðrar brautir. Fantasíur og langanir sem ég ber ótrauð á borð, þríleikur með kinky ívafi. 

Ég veit að það býr eitthvað í mér sem ég hef ekki verið tilbúin að horfast í augu við. Það er viðkvæmt, vandmeðfarið og eitthvað sem ég held alveg fyrir mig. Í BDSM-heiminum er þetta samt blæti eða samskiptamynstur sem er vel þekkt og þess vegna ætti þetta ekki að vera neitt mál. Í BDSM heiminum er þetta ekki tabú. 
Afhverju á ég þá svona erfitt með þetta? Þegar ég fór virkilega að kryfja þetta til mergjar þá kom eitt og annað í ljós. Þetta snertir traustið og nándina á milli leikfélaga og minn eigin vanmátt. Traust er forsenda fyrir öllu, en nánd er það kannski ekki. En ég treysti honum alveg! Já... upp að vissu marki.
Ég fór að spyrja sjálfa mig allra erfiðu spurninganna. Ég hafði alveg látið þetta vera þangað til núna, svo það var mjög krefjandi.  
Hvað gerist ef að ég reyni að koma þessu í orð? Jú, ég þarf þá að opna á þetta viðkvæma og vandmeðfarna. Ég þarf bæði að opna á þetta fyrir sjálfa mig og á sama tíma sýna einhverjum öðrum það. Þetta sem er í algjörri andstöðu við „mig“. Þetta sem sýnir mig í allt allt öðru ljósi. Ég sjálf á alveg svolítið erfitt með að sjá sjálfa mig í þessu ljósi.
Afhverju? Jú, af því að manni er kennt að maður á að vera svona, eða hinsveginn. Það byrjar allt þegar maður er smábarn. Maður er alinn upp í þeirri hugmynd að svona eigi hlutirnir að vera. Það er rétt, gott og æskilegt. Það er erfitt að ganga gegn uppeldinu og heimsmyndinni sem var alin upp í manni. Það er pínu erfitt að viðurkenna að maður þráir eitthvað annað.
Afhverju er það erfitt? Af því að þá koma allar „hvað ef“ hugsanirnar. Maður gæti verið að opna einhverskonar Pandóru-öskju. Hvað ef þetta er svo eitthvað sem hann fílar ekki? Hvað ef hans sýn á mig verður ekki sú sama eftir þetta? Hvað ef hann hafnar mér þegar ég er búin að berskjalda mig svona og ég enda ein og sár? Hvað ef mér tekst svo ekki að pakka þessu saman aftur? Hvað ef hann sér í gegnum mig og áttar sig á því hvað ég er viðkvæm og alls ekki jafn sterk, hugrökk og sjálfsörugg og ég sýni út á við? Hvað ef hann áttar sig á því hvað mig sannarlega skortir, og hversu djúpstæður sá skortur er? Ég er ekki tilbúin að kveikja einhvern vonarneista innra með mér sem ég er viss um að slokknar svo fljótlega. Það er virkilega sárt.
Svo er það hitt, ef ég opna þessa Pandóru-öskju gæti það flætt yfir allt líf mitt. Ég þarf virkilega á því að halda að vera til staðar fyrir mig, og fyrir krakkana mína. Ég má ekki við því að týna geðheilsunni (já, þetta er svona pæling um hvað gæti gerst í allra versta falli, sem er kannski ekkert sérlega líklegt).

Ég er bara ekki tilbúin til að taka þessa áhættu.

Ég vil vera áfram skemmtilega, kjarkaða, ögrandi og sjálfsörugga ég. Kannski ekki fullkomin, en samt alveg osom! 

p.s. það var alveg erfitt að skrifa þetta, en samt er gott að skoða þetta gaumgæfilega.

Ummæli

Vinsælar færslur