Óljós mörk

Eins og ég hef talað um áður eru góð samskipti lykillinn að góðum leik og góðu leikfélagasambandi (og almennt séð góðum samböndum). Það skiptir miklu máli að tjá sig um sín mörk, hvað má, hvað má kannski undir sérstökum kringumstæðum og hvað má alls ekki. Svo eru til mörk sem eru óljós og koma ekki í ljós fyrr en reynt er á þau. Ég rakst á eitt svoleiðis um daginn.


Ég er búin að vera í samskiptum við mann og við erum að prófa okkur áfram í allskonar. Þar á meðal BDSM og grunnurinn hefur verið lagður þannig að ég er sú undirgefna og hann er drottnandi. Þetta hefur verið draumi líkast og margir möguleikar að opnast í allar áttir. Allt er hægt, allt er í boði og einu takmarkanirnar eru manns eigin hugur. Við höfum gælt við allskonar hugmyndir og daðrað daginn út og daginn inn. Eftir nánast heilan dag af dónalegum skilaboðum fram og til baka þá spurði hann hvort ég væri til í að domma sig.

Þar sem ég er skiptir veld ég nokkuð auðveldlega báðum hlutverkunum. Ég hef samt beinlínis þörf fyrir að vera undirgefin. Það kraumar í mér og kallar á mig ef að ég fæ ekki þá útrás. En mér finnst gaman að drottna. Það er gott fyrir egóið og maður getur fengið mikið kikk út úr því. Ég hef samt enga sérstaka þörf fyrir að drottna. Ég get daðrað við það en látið það alveg eiga sig ef svo ber undir.

Miðað við samskipti dagsins var þessi bón ekki heldur alveg úr lausu lofti gripin. Ef satt best skal segja var ég aðeins farin að sjá þetta fyrir og hálf-kveið því að þessi spurning myndi dúkka upp.

Málið er að ég hef verið í þessari stöðu alveg nokkrum sinnum áður. Þar sem ég hef verið í samskiptum við drottnandi aðila með það í huga að vera undirgefin þeim aðila. Síðan kemur það á daginn að hann vill prófa að vera undirgefinn og þar sem mér finnst eðlilegasti hlutur í heimi að þóknast, þá prófum við það. Það verður til þess að það verður ekki aftur snúið. Viðkomandi vill þá ganga lengra í þá áttina og vill vera undirgefni aðilinn í sambandinu, eða undirgefinn mér. Það var ekki það sem lagt var upp með í upphafi og það stemmir ekki við mínar þarfir! Ég hef líka verið í samskiptum við aðila sem voru skiptar eins og ég, hugmyndin var þá að við myndum skiptast á. Einhvernveginn æxlaðist það alltaf þannig að þegar kom að því að leika endaði ég í drottnandi hlutverkinu. Á meðan svalt undirgefna hliðin mín, sem sárlega vantaði útrás.

Mér fannst ég allt í einu vera komin í snúna stöðu þarna. Var ég til í að domma hann? Þýddi það þá ekki að ég væri komin í sama pakkann með þessum manni eins og hinum? Þannig að ég myndi enda í drottnandi hlutverki sem mig vantaði ekki, á meðan undirgefna hliðin mín fengi ekki sína útrás? Mögulega, og er það möguleiki sem ég vildi yfir höfuð hafa? Mín niðurstaða var sú að það er ekki möguleiki sem ég vil hafa opinn. Ég hef brennt mig of oft á því. Á sama tíma langaði mig ekki að valda honum vonbrigðum og ég vildi síst bregðast honum.

Ég hleypti í mig kjarki og sagði honum frá minni reynslu af þess konar æfingum og að hún væri almennt þannig að ég sæti eftir með sárt ennið. Það var ekki auðvelt en ég held að ég hafi komið því skýrt og skilmerkilega frá mér. Í fyrstu vildi hann sannfæra mig um ágæti mitt og hans trú á að við myndum örugglega ekki lenda í þeim pakka. Sem er eiginlega það sama og ég hafði áður heyrt í sömu aðstæðum. Þegar frá leið varð lendingin sú að það sem við áttum nú þegar og það sem við vorum að byggja upp saman, væri dýrmætara en löngun hans til að prófa að vera undirgefinn. Mér létti stórlega þegar þetta var lendingin og varð öruggari í okkar samskiptum fyrir vikið. 

Það er akkúrat þannig sem þetta virkar, skýr mörk og góð samskipti veita manni þann ramma og öryggi sem þarf til að gera eitthvað meira og ganga lengra í þá átt sem mann langar. Þetta þarf líka að vera í báðar áttir. Báðir aðilar þurfa að setja fram skýr mörk og segja frá ef eitthvað er að plaga þá. Það hljómar einfalt, en þegar á hólminn er komið er það kannski meiri áskorun en maður gerir ráð fyrir. 
Þá er gott að minna sig á að leikurinn er til þess gerður að allir njóti sín og hafi gaman. Ef að einhver er ekki að njóta sín eða hafa gaman, þá er þetta ekki leikur lengur. Að mínu mati eiga allir að leika sér og hafa gaman. Þannig að: tölum saman svo við getum haft gaman


!

Ummæli

Vinsælar færslur