Öruggt, samþykkt, meðvitað og skýr mörk

Í kink-heiminum er mikið lagt upp úr góðum og skýrum samskiptum. Það liggur í einkunnarorðunum sem margir styðjast við: Öruggt, samþykkt og meðvitað. Við þurfum að vera meðvituð um að hámarka öryggið í öllu sem við gerum. Þess vegna erum við til dæmis ekki að nota trosnuð reipi til að hengja manneskjur upp með, og erum með öryggisskærin á vísum stað ef það þarf að klippa bönd eða ólar.

Það þarf líka að liggja fyrir samþykki fyrir öllu sem við gerum og það er ekki sama hvernig það samþykki er fengið. Þar kemur hugtakið meðvitað inn. Það er hægt að fá samþykki með því að ógna einhverjum eða með því að misnota hugarástand einhvers. Til dæmis ef að fólk er ölvað eða í svo miklu örvunárástandi að það gæti samþykkt eitthvað sem það myndi annars ekki gera. Þess vegna þarf maður að vera meðvitaður þegar maður veitir samþykki og meðvitaður um hvað maður er að samþykkja. Aldrei ætti maður að samþykkja eitthvað sem maður veit ekki hvað er!

Síðast en ekki síst þá þarf maður að setja mörk. Allir hafa einhver mörk! Ef að einhver segist ekki hafa mörk þá er viðkomandi að ljúga eða gerir sér ekki grein fyrir því að mörk geta verið allskonar og út um allt. Það er gott að velta þeim fyrir sér hvar þau eru og í hverju þau felast. Má klippa eða raka hárið? Má stinga hverju sem er hvert sem er? Er eitthvað áhald sem er ekki í boði? Má fara í símann þinn og senda skilaboð í allar áttir? Sumt af þessu hljómar kannski eins og eitthvað sem á ekki við. Maður veit samt aldrei hvað púka-perralingum dettur í hug að gera og allur er varinn góður.

Ég hef mín mörk eins og aðrir. Ég vil ekki leiki sem ganga út á að rjúfa húð, þannig að manni blæði. Ég vil ekki vera meidd í andliti. Ég vil alls ekki clover klemmur á geirvörturnar og það má ekki skilja mig eftir bundna í einhvern tíma, svo eitthvað sé nefnt. Sumt af þessu hljómar kannski eins og almenn skynsemi og eru mörk sem hafa verið alla tíð. Eins og að vilja ekki leiki sem rjúfa húð eða vera meidd í andliti. Ég hef aldrei prófað það og ég þarf ekki að prófa það til að vita að þetta er eitthvað sem ég vil ekki. 

Önnur mörk eru tilkomin af reynslu. Ég hef prófað að fá clover klemmur á geirvörturnar og ég komst að því þannig að það er eitthvað sem ég vil ekki. Eins hef ég verið bundin og skilin eftir ein í einhvern tíma og mér fannst það mjög vont. Mörgum finndist það notalegt en ekki mér.

Nýr leikfélagi myndi ekki vita þessi mörk mín nema ég segi viðkomandi frá þeim. Það er líka á mína ábyrgð að segja frá mínum mörkum. Það er á mína ábyrgð að passa upp á mig með þeim hætti að upplýsa leikfélagann um allt sem gæti snert leikinn, hvort sem ég er sá undirgefni eða drottnandi. Þetta á ekki bara við um mörkin manns, heldur allt annað. Eru einhver heilsufarsleg vandamál sem gæti truflað? Ofnæmi, eða stoðkerfisvandamál? Bakverkur sem kemur í veg fyrir að maður geti verið lengi í ákveðinni stellingu? Eða svefnleysi? Er kannski mikið álag í vinnunni? Það er svo margt sem getur spilað inn í og það er á okkar ábyrgð að koma því til skila.

Ef maður vill gera þessi hluti vel, þá er fyrsta skrefið að góðum leik og góðu leikfélagasambandi góð samskipti. Á þeim grunni má byggja höll, eða virki, eða dýflissu... 


Ummæli

Vinsælar færslur