Jólaklemmuleikur

Það er tæp vika síðan þessi leikur var og það kemur ennþá á mig aulabros þegar ég hugsa um hann. Einfaldlega var þetta með skemmtilegustu klemmuleikjum sem ég hef farið í.

Baksagan er sú að ég átti að finna þrjá nice og þrjá naughty hluti fyrir jóla-kink-hitting. Einn af naughty hlutunum sem ég kom með var klemmuleikur með þrettán klemmum. Klemma fyrir hvern jólasvein. Ég var nokkuð hróðug með sjálfa mig fyrir að koma með þessa skemmtilegu hugmynd, enda er ég jólabarn mikið. Ég pakkaði niður klemmunum mínum sem bíta ekki of fast og eru svo skemmtilega rauðar, svona til að ýta undir jólastemminguna (klemmurnar mínar eru alveg eins og þessi á myndinni).   

Við skoðuðum klemmurnar saman og fórum aðeins yfir hvað mátti og hvað mátti ekki gera með þeim. Ég er kannski masókisti, en ég hef mínar takmarkanir. Síðan var ég bundin á höndum og fótum niður í rúm og gat mig lítið hreyft. Ég vissi hvað stóð til og það hlakkaði í mér. Nema hvað, hann stendur upp og fer út úr herberginu. Fljótlega kemur hann aftur með bók í hönd og órætt glott á vörum. Ég hugsa að þessi bók sé til á mörgum heimilum, og heitir einfaldlega Jólin koma. Í henni eru meðal annars Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum.

Glottandi segir hann mér að ég eigi að lesa kvæðið á meðan hann setji eina og eina klemmu í einu, eina fyrir hvern jólasvein. Síðan opnar hann bókina og heldur henni uppi þannig að ég geti lesið.
Ég byrja lesturinn og vanda mig mikið. Þegar Stekkjastaur kemur fyrstur, stinnur eins og tré, setur hann á mig fyrstu klemmuna. Það var ekki svo vont. 
Giljagaur kom annar, og Stúfur var sá þriðji, sá fjórði, Þvörusleikir og fimmti Pottaskefill. Þá var ég farin að bíta á jaxlinn og herða talsvert á lestrinum. 
Sjötti Askasleikir og sjöundi Hurðaskellir, Skyrgámur sá áttundi og níundi var Bjúgnakrækir. Úff... þetta var farið að taka í og ekki laust við að ég væri farin að kveinka mér. 
Tíundi var Gluggagæir, ellefti var Gáttaþefur. Jæks, klemmurnar voru farnar að meiða talsvert og ég var farin að buna út úr mér orðunum með pásum og andköfum. 
Ketkrókur sá tólfti... Á! Á! Á! Bara einn eftir! Djö... hann á erfitt með að koma henni fyrir! Andsk... þetta er vont!
Þrettándi var Kertasníkir þá var tíðin.... Á! Bíddu, svo eru fleiri erendi eftir?!! Æjii....!

Einhvernveginn náði ég að klára allt ljóðið áður en hann fór að týna klemmurnar af. Ég engdist um á meðan klemmurnar fóru af, ein og ein í einu. Svona eins og jólasveinarnir.

Þegar síðasta klemman fór af, lá ég eftir í boðefnaflóði, hlæjandi, hátt uppi, aum á viðeigandi stöðum og alsæl með leikinn. Mér fannst mín hugmynd um þrettán klemmur í stíl við jólasveinana góð, en þessi vendingur á þeirri hugmynd gerði leikinn enn betri.

Það er einn hængur á, þessar vísur eru núna svo vel tengdar við þennan leik að ég get ekki einu sinni litið bókina augum, hvað þá hlustað á eða farið með þessa vísu, án þess að hugurinn fari aftur þangað og aulabros kemur fram á varir mínar.

Ummæli

Vinsælar færslur