Klikkaðar kynlífssögur
Ég er alla jafna himinlifandi yfir allri opinskárri og opinberri umræðu um kynlíf. Þannig að þegar ég rakst á þetta podcast, klikkaðar kynlífssögur, þá hlakkaði í mér. Við fyrsta tækifæri kveikti ég á því til að drekka það í mig. Því miður stóð þetta podcast enganveginn undir væntingum mínum. Eins og titillinn ber með sér þá fá tvær stöllur til sín fólk til að deila með sér ýmsum vangaveltum og sögum úr stefnumóta- og kynlífsmenningu íslendinga. Sem er að mörgu leiti geggjað.
Það sem plagaði mig samt strax við podcastið er að þær eru tvær "tipsí" og alltaf með rauðvínsbelju á kantinum. Þær passa að hella reglulega í glösin hjá sér og viðmælendum sínum, þannig að það fari alls ekki framhjá áheyrendum. Ég ímynda mér líka stundum að það hreinlega heyrist að þær séu farnar að finna á sér. Það eitt finnst mér rosalega óaðlaðandi og ég var oft komin að því að slökkva bara.
Sko! Mér finnst það skjóta skökku við að geta ekki talað um kynlíf á opinskáan og einlægan hátt án þess að vera með áfengi um hönd. Með því að hafa hátt um að allir séu frekar tipsí í podkastinu, þá virkar það eins og það þurfi að losa um málbeinið áður en hægt er að tala um kynlíf. Eins og það sé feimnismál eða skammarlegt að spjalla um kynlíf. Það er einmitt ekki stefnan sem þessi umræða ætti að taka. Nær allir hafa kynhvöt og nær allir stunda kynlíf í einhverri mynd. Þannig að nær allir hafa einhverja kynlífssögu að segja. Það er ekkert leyndarmál!
Með því að gera svona mikið úr áfengisdrykkju podkastinu þá finnst mér þessar ágætu stelpur vera óbeint, og pottþétt ómeðvitað, að viðhalda þeim gildum að opin umræða um kynlíf sé tabú.
Það eru samt tveir þættir af Klikkuðum kynlífssögum sem mig langar samt að mæla með. Það eru þættirnir Kjaftað um kynlíf með Siggu Dögg og svo Flengdu mig fastar. Í þeim þáttum eru viðmælendurnir alveg frábærir.
Ummæli