Öryggisorð og hvað svo?

Ég upplifði það um daginn að það var farið yfir mörk hjá mér. Í netspjalli notaði ég öryggisorð og upplifði að það væri hunsað. Hans upplifun á atvikinu er allt önnur, hann áttaði sig ekki strax á því að ég hefði notað öryggisorðið.
Það fauk í mig þegar hann brást ekki strax við eftir að ég notaði öryggisorðið og eftir að ég hafði jafnframt beðið hann að stoppa. Ég varð virkilega reið og skrifaði honum pistilinn. Hann kom af fjöllum og sagði eins og satt var, að hann hafi stoppað um leið og hann áttaði sig á því að ég hafði notað öryggisorðið. Sem er alveg satt, hann gerði það og ég samsinnti því. 
Svo var 15 mínútna þögn þar sem hvorugt okkar sagði neitt. Síðan kom buna af orðum frá honum um að honum þætti framkoma mín ósanngjörn, ég hefði fryst hann úti og að hann væri ekki sáttur. Ég skildi það alveg, enda fraus ég sjálf eftir þetta atvik, ég sagði ekki neitt, ég átti engin orð, tilfinningarnar mínar voru í flækju og ég var hálf dofin. Mig langaði mest að bjóða góða nótt, loka tölvunni, leggjast upp í rúm og knúsa bangsann minn, en ég gerði það ekki, ég sat bara og starði út í loftið.

Við tók mjög erfitt samtal. Ég reyndi eftir bestu getu að útskýra mína hlið, að varpa ljósi á mína upplifun, hvað það var sem fór úrskeiðis og hvað olli því að ég notaði öryggisorðið. Ég hélt ég hefði verið að gera það vel, ég vandaði mig að minnsta kosti mjög mikið, en það komst illa til skila (þegar ég las samtalið yfir eftirá er það kannski skiljanlegt).
Ég upplifði hann í vörn og sá alveg nýja hlið á honum, harða, kalda og óvíkjandi.
Mér fannst eins og hann væri að krefja mig um afsökunarbeiðni. Afsökunarbeiðni á því að hafa notað öryggisorðið og að hafa orðið reið þegar ég upplifði að það hafi verið hunsað?
Ég tók meðvitað þá ákvörðun að ég skyldi ekki á neinn hátt biðjast afsökunar á minni hegðun í þessu máli. Enda var mín upplifun sú að öryggisorðið hafi verið hunsað, ég varð reið, og mín viðbrögð og tilfinningar voru algjörlega réttmætar.
Hans upplifun var önnur og ég get alveg skilið það. Ég get alveg fyrirgefið honum að hafa ekki áttað sig strax á því að ég hafi verið nota öryggisorðið. Þetta gerist á bestu bæjum, fólk áttar sig ekki á því sem hinn aðilinn er að segja eða les ekki rétt í aðstæður, og ég sagði honum þetta allt saman.

Ég á hinsvegar mun erfiðara með að vinna úr því sem kom á eftir. Í barnaskap mínum hélt ég að það væri borðleggjandi að þegar einhver notar öryggisorð þá stoppar allt og það væri hlúð að þeim sem sagði það. Afhverju kom það upp? Hvað varð til þess? Hvernig er hægt að vinna úr þessu og halda áfram? Jafnvel myndi sá sem notaði öryggisorðið fá klapp á bakið og hrós fyrir. Það er mikill styrkur fólginn í því að þekkja sín eigin mörk og geta sagt til um það þegar það er farið yfir þau. Ég sem sagt bjóst við þessum viðbrögðum.
Ég bjóst ekki við því að þurfa að réttlæta mína hlið og verja mig. Ég bjóst ekki við því að það yrði við mig að sakast. Ég bjóst við því að hann myndi axla ábyrgð á hegðun sinni strax. Einfaldlega með því að biðjast strax afsökunar á því að hafa ekki áttað sig á því að ég hafi sannarlega verið að nota öryggisorðið. Síðan myndum við ræða um það afhverju það var notað og halda svo áfram. Þetta er svo sáraeinfalt, eða það hélt ég.
Á endanum varð niðurstaðan sú að hann vildi ekki að rífast við mig um þetta, og jú, hann hefði átt að átta sig fyrr og honum þótti það miður.

Þetta kvöld fór ég sár að sofa, marin og aum á sálinni. Þegar upp er staðið þá var stóra málið ekki ástæðan fyrir því að ég notaði öryggisorðið. Það var orðið frekar léttvægt miðað við hitt. Stóra málið var viðbrögð hans við því að ég notaði öryggisorðið.  

Daginn eftir lét ég hann vita að ég væri eftir mig eftir þetta atvik. Með hnút í maganum spurði ég hvort við gætum ekki fundið einhvern betri farveg ef eitthvað svona lagað kæmi upp aftur. Hann sagðist vera frekar niðurdreginn yfir þessu sjálfur og tók vel í þá hugmynd að finna betri farveg. Ég var þá ekki ein um að vera beygluð eftir þetta og á einhvern frumstæðan máta fann ég til mikils léttis.

Það sem ég lærði eftir þetta atvik er að það er ekki nóg bara að hafa öryggisorð. Það þarf að vera á hreinu hvað kemur í kjölfarið á því að öryggisorðið er notað. 
Það vita það nær allir að ef annar hvor aðilinn notar öryggisorð þá stoppar leikurinn. Hvort sem það er stopp í smá stund eða alveg stoppað. En hvað gerist svo? Hvað gerist í stoppinu? Eða eftir að það er alveg stoppað? Hætti ég bara að lemja þig, pakka dótinu mínu ofaní tösku og yfirgef samkvæmið? Eða tek ég utanum þig, setjumst við niður og ræðum málin? Er after-care? Hvað með upplifun hins aðilans, þess sem ekki notaði öryggisorðið, skiptir hún máli? Þarf ég sem aðili sem sagði ekki öryggisorðið, heldur tók við því, sérstaka umhyggju eftir að öryggisorðið er notað? Hvaða hugmyndir erum við með um hvað gerist eftir að öryggisorðið er notað? Hvernig á að bregðast við því, hvað á að gerast og í hvaða röð á þetta að gerast?

Ég vissi ekki að þetta skipti svona miklu máli, og ég áttaði mig ekki á því að allt svona þarf í alvörunni að ræða og hafa á hreinu. Á því byggir traustið og öryggið þegar sannarlega á reynir. 

Ummæli

Vinsælar færslur