Á toppnum

Ég er að fara í fjölmennt leikpartý á morgun. Ég hef ekki farið í eitt slíkt lengi, út af dottlu. Það er ennþá lengra síðan ég hef farið í svona leikpartý með það fyrir augunum að leika.

Þegar ég sá að einn af uppáhalds masókistunum mínum var að fara að mæta þá hlakkaði í mér. Ég var þegar farin að hugsa um í hverju ég ætti að vera, en allt í einu var hugurinn kominn ofaní dótatöskuna mína. Hvað væri hægt að gera og hvernig. Hvernig ætti ég að binda hann? Hvað ætti inntakið í leiknum að vera? Hverjar ættu áherslurnar að vera? Hvað má og hvað má ekki? Hvað með fleiri þátttakendur í leiknum? 

Í þessum leikjum er það ekki bara leikurinn sem skiptir máli. Það eru aðstæðurnar og umhverfið líka. Að leika í partýum eða opinberlega hefur auka vídd, og sú vídd er að miklu leiti áhorfendur.
Ég hef alla jafna ekki mikla sýniþörf, en á sama tíma þá er ég ekki spéhrædd. Ég hræðist ekki áhorfendur og hef að einhverju leiti gaman af því að það sé fylgst með mér leika. Það er viss innspíting inn í leikinn. Maður gefur meira í, maður passar betur upp á líkamsstöðuna, maður hlustar eftir viðbrögðum áhorfenda á sama tíma og athyglin er á viðbrögðum leikfélagans. Maður spáir kannski í hvað af leiknum áhorfendur sjá og hvað ekki, og ég hef leikið mér með það, til dæmis með því að kalla fram sterk viðbrögð við einhverju sem virðist vera ósýnilegt.

Það er geggjuð tilfinning þegar áhorfendur sogast inn í leikinn og allt í einu verður til eitthvað samspil á milli leikenda og áhorfenda, spennan er í takt við leikinn og loftið verður rafmagnað. Það er engu líkt þegar maður trónir einhvernveginn á toppnum með valdið yfir leikfélaganum, og þar með leiknum og með því hefur maður áhorfendur í hendi sér. Það er ekki hægt að koma þessari stemmingu í orð. Maður verður bara að upplifa það. 

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Ég er nýbúinn að hnjóta um þetta blogg hjá þér. Til hamingju með að vera svona örugg með sjálfa þig sem kynveru. Ég sjálfur er að reyna að komast á þann stað og því eru skrif þín ferskur innblástur fyrir mína vegferð.
Vonandi heldur þú áfram að skrifa

Vinsælar færslur