Ein ný skilaboð
Ég verð að viðurkenna eitt fyrir ykkur. Ég er allt að því fíkin í skemmtileg, daðursleg og leikandi samskipti við menn á netinu. Þegar ég er að skiptast á skilaboðum við einhvern þá kíki ég oft á dag hvort eitthvað nýtt hafi borist frá viðkomandi. Stundum opna ég skilaboðin, les þau og hugsa um þau, og svara svo mörgum klukkutímum seinna. Part bara til þess að lengja tímann, til að njóta þessa lengur, part til þess að geta komið með geggjað gott og úthugsað svar til baka.
Ég átti í svona samskiptum í vetur. Það var hrein unun að lesa skilaboðin frá honum, ég brosti og hló yfir þeim. Ég gladdist yfir sigrum hans og hryggðist yfir því sem miður fór. Ég gaf ráð og ég fékk ráð. Allur bragur á samskiptunum var lifandi og ég naut mín. Ég naut mín líka í því ljósi sem ég sá mig í í þessum samskiptum (ég vona að þið skiljið hvað ég er að reyna að segja). Eins og verða vill þá þróaðist þetta og samskiptin fóru yfir á annan miðil. Samskiptin fóru úr löngum og flæðandi póstum yfir í styttri og beinskeittari stílinn. Það er enginn að fara að skrifa langa ræðu á messenger eða snapchat. Þar með dó líka eitthvað í spjallinu. Það vantaði fullt af fallegum orðum sem nutu sín áður. Það vantaði rétta tóninn og blaðrið sem vellur út úr manni þegar maður fær munnræpu á prenti. Á endanum fjaraði þetta líka út, eins og gerist.
Ég sakna þess samt, ég sakna löngu skilaboðanna, fallegu orðanna, ákafans og ástríðunnar. Ég sakna kannski einna mest athyglinnar, hvernig ég upplifði sjálfa mig og hvernig mér leið í þessu spjalli.
Staða spjallara er því laus til umsóknar
Ummæli
Einhverstaðar á leiðinni dofnar síðan yfir hvað sé nýtt í fari viðkomandi og spennan minnkar. Á þetta ekki við öll sambönd.. hvort sem þau eru í formi bréfaskrifta eða annara forma.
Galdur góðs sambands er að kunnáttan að viðhalda því...
Kveðja
ComputerSaysNo
Í þessu tilfelli vil ég samt meina að formið hafi orðið spjallinu að falli.
En er sammála því að skeyraformið nær sjaldan til fólks og kveikir ekki upp í lesanda.
En ég er viss um að hafi viðkomandi vitað að tilhlökkun þinni þá hefðu hann/hún vandað sig meira.
Kveðja
ComputerSaysNo
Ég er samt pínulítið ósammála þér þarna. Það er hægt að gera endalaust mikið með rituðum orðum ef maður er fær að skrifa. Tóninn, andinn, og jafnvel glottið geta komist til skila ef vel er gert. Tjáknin, finnst mér stundum vera ofureinföldun á flóknum samskiptum, og ekki síður misskilin.
Svolítið eins og það sé verið að stytta sér leið. Eins og að segja: "sorrý", í staðinn fyrir einlægt "fyrirgefðu".
Kveðja
Það er bara ekki öllum gefið að ljá orðum sínum þau gæði að tilfinning fylgi þeim. Ég er eins og þessi meirihluti sem á erfitt með það.. auk þess er þumalinn sífellt að lenda á röngum staf á símanum mínum sem gefur setningunum engann glæsi brag :-)
En tjákn hefðu t.d. getað bjargað mér þegar ég spurði ókunugan mann hvort ekki væri í lagi með hann. Þessi spurning var vel meint, spurð í umhyggju, en þar sem þetta var ókunnugur einstaklingur og þekkti ekki tóninn, eða mér ekki tekist að ljá honum þess sem þurfti til að hluttekning næði í gegn, þá var þetta tekið sem gagnrýni og hroki af minni hálfu...
Svo ég vill því vera ósammála varðandi tjákn... þau gefa orðum oft nýja merkingu.
Kveðja
ComputerSaysNo