Naflaskoðun

Ég var örugglega búin að segja það hérna að ég er í alsherjar naflaskoðun þessa dagana. Hausinn á mér er á fullu og það eru milljón hlutir sem fara í gegnum hann. Allir snúa þér að mér, minni líðan, minni hegðun, mínum tilfinningum og mínum upplifunum. Í þessum hrærigraut hef ég lært heilmargt. Meðal annars að meta fólkið sem ég umgengst. 

Ég umgengst fullt af frábæru fólki og hef þá staðföstu skoðun og trú að allir séu gæðablóð inn við beinið, allir eiga sinn tilverurétt og allir eiga sínar sterku og veiku hliðar.
Ég veit líka að það eiga ekki allir saman. Fræðimenn segja að hlutfallið sé 70/30. Sem sagt; 70% af fólki sem þú hittir líkar vel við þig, sama hvað, og 30% af fólki á ekki skap með þér. Ekki svo að skilja að fólkið í 30% hópnum sé slæmt eða óvinir þínir, heldur passar það bara ekki við þig. Það hefur komið fyrir að ég skelli fólki bara í 30% hópinn og er alveg sátt við að hafa það bara þar. 

Þetta er samt ekki það sem ég ætlaði að vera að skrifa um. Það sem mig langaði að segja er að ég er farin að meta fólk út frá því hvernig mér líður, með mig, í kringum það. Líkar mér við það hvernig mér líður og hvernig ég hegða mér í kringum það? 

Fólk hefur mismunandi áhrif á mann. Sumir draga fram galsa í manni á meðan aðrir henda manni beint ofaní djúpar pælingar, enn aðrir keyra mann beint inn í einhvern pirring og leiðindi. Ég held að flestir kannist við þetta. Mismunandi fólk dregur fram mismunandi hluti hjá okkur. Ég hef verið að skoða sjálfa mig í þessu ljósi.
Ég hef umgengist fólk sem laðar alls ekki fram það besta í mér, og það laðar alls ekki fram hlið sem ég vil sýna. Það getur verið áskorun að hegða sér fallega í kringum fólk sem kallar á púkann í manni. Sumir hafa meira að segja kalla fram hegðun í mér sem samræmist ekki mínum gildum og mér líður ekki vel með það. Þetta getur verið hið besta fólk sem ég á í góðu sambandi við, jafnvel vinir mínir. 

Ég er ekki komin svo langt að vita hvað ég ætla að gera við þessar pælingar mínar.
Nema, ég vil að mér líki vel við sjálfa mig í návist framtíðar leikfélaga og rekkjunauta. Það þýðir að þegar ég hitti fólk þarf ég ekki bara að spá í það, heldur líka sjálfa mig. Úff.... það er heilmikil vinna!

Ummæli

Vinsælar færslur