Fimm rauð flögg

Ég fór á Tinder. Ég fór á Tinder í þeim eina tilgangi að hitta mann, eða menn, til að stunda kynlíf með og það án allra skuldbindinga. Einasta eina skilyrðið sem ég setti fyrir þessu er að mig langi til að sofa hjá viðkomandi aðila. Það er ekki sérlega flókið, er það? Hvernig er þá hægt að klúðra því? 

Ég sá einn þeldökkan inni á Tinder. Ég svæpaði til hægri og viti menn, það var match! Við byrjuðum að spjalla smá í kjölfarið og töluðum um okkar væntingar. Við vorum bæði á sömu línu, okkur langaði í félaga til að hitta af og til og stunda kynlíf með. Hann var einhleypur og bjó einn. Bingó!
Hann kvartaði eiginlega strax undan því að íslenskar konur væru leiðinlegar við hann, þær misstu áhugann upp úr þurru og létu sig hverfa. Ég lofaði kauða að ég myndi ekki gera slíkt hið sama. Hann kvartaði samt og kveinaði meira yfir íslenskum konum og sagði meðal annars að þær væru rasískar, og þá spratt upp fyrsta rauða flaggið. 
Við ákváðum samt að láta slag standa og hittast einhverjum dögum seinna. Ég sagði að ég vildi hitta hann á opinberum stað til að byrja með, eins og á kaffihúsi til dæmis. Hann samþykkti það með semingi, og þar kom annað rautt flagg.
Jafnvel þó hann væri búinn að samþykkja það að hitta mig á kaffihúsi, þá talaði hann um það að hringjast á eða taka myndsímtal til að kanna hvort okkur myndi líka hvort við annað. Ég var ekki spennt fyrir því. Hann sagði að það myndi hjálpa til og við gætum þá eytt óvissunni yfir því hvort okkur litist vel hvort á annað. Ég benti honum á að við værum þegar búin að ákveða að hittast til að skera út um það, þá fór að glitta í þriðja rauða flaggið.
Jújú, sagði hann, en honum fannst það fyrirhöfn að hittast úti í bæ ef að það yrði mögulega ekkert meira úr því. Fjórða rauða flaggið birtist á sjóndeildarhringnum.
Ég sagði honum frekar ákveðin að ég myndi bara sofa hjá honum ef að mig langaði til að sofa hjá honum. Þá kom upp úr krafsinu að hann vildi ekki hittast yfir kaffibolla. Hann sagði að hann vissi nú þegar að hann vildi sofa hjá mér, og að hann væri að leita að konu sem léti ekki tilfinningar sínar ráða ferðinni, heldur einhverri sem væri til í að setja tilfinningar sínar til hliðar og hoppa upp í rúm með honum. Fimmta rauða flaggið argaði á mig og ég tók mark á því.
Mig langaði að benda honum á að það væri heil starfstétt (ólögleg á Íslandi að vísu) sem væri akkúrat í þessu. Ég hamdi mig og sendi honum til baka að þá væri ég einfaldlega ekki konan sem hann var að leita að. Ég óskaði honum góðs gengis og un-matchaði okkur á Tinder. 

Fljótlega fékk ég WhatsApp skilaboð frá kauða (við skiptumst jú á númerum því við ætluðum að hittast). Hann var ósáttur, ruddalegur og sagði að ef vildi gott kynlíf án skuldbindinga ætti hann heima í Breiðholtinu (hann gaf mér heimilisfangið sitt sko). Með fylgdi óumbeðin nærmynd af typpi, sem ég geri ráð fyrir að hafi verið hans typpi. Mikið var ég glöð að fá þarna svart á hvítu að ég valdi rétt. 

Eftir á að hyggja þá held ég að öll skilaboð og samskipti eyðast þegar maður un-matchar einhvern á Tinder. Þannig að mögulega hefur hann ekki séð skilaboðin frá mér þar sem ég óska honum góðs gengis með áframhaldandi veiðar. Eðlilega hef ég þá einfaldlega gufað upp í hans augum, sem ég sagðist ekki ætla að gera. Ég er alveg með smá samviskubit yfir því en ég vissi ekki betur þá. 

Hinsvegar er ég ekki með samviskubit yfir því að hafa hafnað honum og bent honum á hina fiskana í sjónum. 



Ummæli

Nafnlaus sagði…
Eru ekki til reglur um hvað eigi ekki að gera á fyrsta deiti... ja í þínu tilfelli féll viðkomandi á for.. forleiknum.
1. Ekki tala um fyrrverandi
2. Ekki kvarta og kveina.
3. Ekki tala bara um sjálfan sig.
.
.
.
12. Ekki senda typpamynd án samþykkis ... og þá eftir að hafa lesið hina vísindalegu ritrýndu grein DV, um hvernig maður tekur bestu typpamyndirnar.

Kveðja
ComputerSaysNo

Prinsessan sagði…
Mig langar pínulítið að vita hver atriði 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10 og 11 eru, fyrst typpamyndin er í 12. sæti. Myndi setja hana miklu framar, jafnvel þó hún væri eftir stöðlum DV um góðar typpamyndir. Að vísu eru miklir aðferðafræðilegir vankanntar á þeirri rannsókn.

Ég hugsa að margir séu þegar búnir að skrifa bækur og pistla um hvað á að gera og hvað á ekki að gera í samskiptum við hitt kynið. Og ég er alveg sammála þessum punktum, þessir þættir eru mjög fráhryndandi.
Nafnlaus sagði…
hmmm

Væntanlega alveg rétt hjá þér... færum lið 12 í eitt af fyrstu 4 sætunum. Getði reyndar ekki ráð fyrir að það yrði fyrsta date eftir slíka sendingu.

Hafði ekki heyrt áður að DV hafi ekki sannreynt greinar eða ritrýnt fyrr en núna 🙃

5. Gerðu ekki ráð fyrir neinu líkamlegu á fyrstu deitum umfram kos.

6. Slepptu jafnréttinu og borgaðu fyrir ykkur bæði.

7. Farðu ekki á of fínan stað... hafðu þetta afslappað og hlutlaust

8. Ekki fara grenja þó þú lesir í gegnum símtalið sem hún fékk frá vinkonu sinni eftir 20 mín að þetta var ekki mamma hennar og að það sé ekkert neyðarástand heima fyrir. Hún er bara ekki að fíla þig.

9. Vetð ég að klára listann?

Kveðja
ComputerSaysNo
Prinsessan sagði…
Nr. 9: Algjörlega, fyrst þú byrjaðir, og þú valdir töluna 12. Þú settir markið upp alveg sjálfur!

Ég er samt ekki sammála nr. 5. Ekki einu sinni gera ráð fyrir kossi.

Og ég er sammála nr. 8. Þó það sé súrt, vill maður ekki þegar öllu er á botninn hvolft vera með einhverjum sem virkilega fílar mann? Til hvers að eyða tíma og orku í einhvern sem er ekki á sömu bylgjulengd og maður sjálfur?
-Ég er allavega þar.
Nafnlaus sagði…
Jammm kom mér í þessi vandræði alveg sjálfur 😄

Sko nr 5... ekki gera ráð fyrir.. þýðir ekki að þú segir nei við því ef svo ber undir.

10. Svo langt síðan að ég hef farið á deit... ætli þessi liður ætti ekki að vera ofar... ekki drekka of mikið.. nema þú sér þeim skemmtilegri drukkinn.

11. Nú... ef liður 5 virkaði ekki... þá ekki laumast út. frekar að útbúa morgunmat eða bruns.

Kveðja
ComputerSaysNo
Prinsessan sagði…
Vel gert!! Þú, vinur minn, færð 10 rokkstig fyrir að klára listann!
Nafnlaus sagði…
Hmmmm ætli það sé hægt að umbreyta rokkstigum í eitthvað áþreifanlegt... Dugar kannski að sýna afgreiðslu fólkinu í Bluss þetta og fá að borga mismuninn með vísa.

Kveðja
ComputerSaysNo
Prinsessan sagði…
Ha!! Kannski þegar ég verð komin með samning hjá Blush verður það hægt. Ég skal láta þig vita ;)

Vinsælar færslur