Án allra skuldbindinga?

Ég fékk athugasemd á gamlan póst frá mér um daginn. Pósturinn fjallaði um skuldbindingalaust kynlíf og hvort það væri yfir höfuð til. 

Þessar vangaveltur mínar eiga glettilega við í dag, þar sem ég átti svona samtal mjög nýlega.
Ég var að hitta mann og þó svo að ég hafi verið mjög skýr um það að ég væri ekki að leita mér sambandi eða kærasta, þá fór ég eitthvað að efast. Það læddist að mér einhver grunur um að eitthvað meira gæti verið í spilunum, eða löngunin um eitthvað meira. 

Þegar ég var búin að vera með þetta hugboð í maganum í einhvern tíma tók ég af skarið, og nei, við vorum alveg á sömu bylgjulengd. Í kjölfarið ræddum við hvers eðlis "samband" okkar var og til hvers var ætlast. 

Ég komst að því líka að það fylgir því vissulega skuldbinding að vera að hitta einhvern "án allra skuldbindinga". Þessi skuldbinding snýr að framkomu meira en gjörðum. Þegar maður er búinn að hitta einhvern oftar en tvisvar þá fer óneitanlega að myndast samband, þó það sé ekki eins djúpt, innilegt og ástríðufullt og einhver önnur.
Vildum við halda áfram að hittast? Já, ekki spurning.
Hverjar voru væntingar okkar? Gott kynlíf þegar það hentaði báðum.
Hvaða línur voru lagðar? Heiðarleiki og opin samskipti. Bæði vorum við á höttunum eftir öðru fólki til að uppfylla aðrar þarfir. Skuldbindingin sem ég gaf honum var sú að ég hét því að standa við það sem ég segði.  

Inntak þessa pósts er þessi: Gerðu það sem þú vilt með þeim sem þú vilt, að því gefnu að allir séu samþykkir. Vertu heiðarlegur gagnvart væntingum þínum, og getu þinni til að standast væntingar hins aðilans. Síðast en ekki síst, stattu við það sem þú segir. 

Ummæli

Vinsælar færslur